Lilja Alfreðsdóttir settur ráðherra mun skipa Bergþóru Þorkelsdóttur dýralækni í embætti forstjóra Vegagerðarinnar frá og með 1. ágúst næstkomandi. Þetta kemur fram í frétt Stundarinnar, en samkvæmt henni verður tilkynnt um skipunina á næstu dögum.
Vegagerðin tilheyrir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, en ráðningin var sett í hendur Lilju Alfreðsdóttur vegna tengsla sitjandi ráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, við umsækjanda.
Kjarninn hefur áður fjallað um ráðningarferlið, en ráðuneytinu láðist að auglýsa embættið í Lögbirtingablaðinu. Embættið var fyrst auglýst á Starfatorgi og í dagblöðum en samkvæmt lögum bar einnig auglýsa það í Lögbirtingablaði.
Samkvæmt frétt Stundarinnar stundaði Bergþóra nám í markaðsfræðum við Chartered Institute of Marketing í Bretlandi og nam rekstrar- og viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Áður lauk hún kandídatsprófi í dýralækningum, en hún fékk lækningaleyfi árið 1991, tveimur árum á eftir Sigurði Inga.
Bergþóra hefur starfað sem forstjóri ÍSAM efh., framkvæmdastjóri Líflands og Kornax og hjá Fastus. Hún hefur setið í stjórn Samtaka iðnaðarins og í fulltrúaráði Samtaka atvinnulífsins. Nýlega tók hún svo sæti í stjórn Viðskiptaráðs Íslands.
Bergþóra mun taka við embættinu af Hreini Haraldssyni, en Hreinn hefur gegnt starfi vegamálastjóra síðan árið 2008 þegar Kristján L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, skipaði hann í embættið.