Öll erlend starfsemi Mjólkursamsölunnar hefur verið flutt yfir í nýstofnað dótturfélag MS, Íseu útflutning ehf. Þetta kemur fram í nýbirtri fréttatilkynningu fyrirtækisins.
Samkvæmt tilkynningunni átti flutningur starfseminnar sér stað í gær, en breytingarnar séu liður í því að setja meiri kraft og fókus í alþjóðlega vörumerkið Ísey skyr á erlendum mörkuðum. Ísey útflutningur ehf. mun þó einnig sjá um allan annan útflutning á vörum sem MS selur á erlenda markaði. Breytingin muni eki hafa nein áhrif á daglega starfsemi fyrirtækisins.
Við skiptin lætur Jón Axel Pétursson af störfum sem framkvæmdastjóri sölu-og markaðssviðs MS og tekur við starfi framkvæmdastjóra hjá Ísey útflutningi. Þá mun Erna Erlendsdóttir, sem sinnt hefur starfi útflutningsstjóra MS, taka við sem sölu- og markaðsstjóri hjá nýja félaginu.
Ísey skyr er nú selt á ellefu mörkuðum víðs vegar um Evrópu, en í byrjun næsta árs mun varan einnig fást í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Japan.