Fjármálaráða-og efnahagsráðuneytið ver samanburð sinn við heildarlaun annarra BHM-aðildarfélaga í nýrri tilkynningu á vef stjórnarráðsins. Þar segir ráðuneytið útreikninga sína á launum vera byggðir á sömu forsendum og þeim hópum sem ljósmæður segjast hafa dregist aftur úr auk þess sem ekkert takmarki ljósmæður við að vinna fullt starf.
Ráðuneytið birti tilkynningu sína vegna fréttar sem birtist á vef Fréttablaðsins í gær,en þar var samanburði ráðuneytisins á heildarlaunum meðlima Ljósmæðrafélagsins síðustu tíu ár miðað við önnur aðildarfélög BHM gagnrýnd. Gagnrýni ljósmæðra fólst meðal annars í framsetningu heildarlauna, en þau gera ráð fyrir 100 prósent vinnu. Ragna Þóra Samúelsdóttir, ljósmóðir á Landspítalanum, sagði þó erfitt að vinna 100 prósent vinnu án þess að brjóta lög um hvíldartíma í viðtali sínu við Fréttablaðið.
Í svari ráðuneytisins var þessu hins vegar neitað, hvíldartímaákvæði hafi ekki takmarkað möguleika á að vinna fullt starf síðan þau komu inn í kjarasamninga 1997. ákvæðið í kjarasamningi ljósmæðra sé eins og allra annarra stéttarfélaga sem ríkið semji við og hafi verið óbreytt í tvo áratugi.
Ráðuneytið bætir einnig við að útreikningar á launum ljósmæðra séu byggðir á nákvæmlega sömu forsendum og laun þeirra viðmiðunarhópa sem ljósmæður segjast hafa dregist aftur úr. Í öðrum hópum séu einnig starfsmenn í hlutastarfi en til þess að geta borið saman laun mismunandi hópa á sömu forsendum séu þau stöðluð í 100% starf.