Davíð Helgason, stofnandi og eigandi Unity Technologies sem framleiðir verkfæri fyrir tölvuleikjaframleiðendur, greinir frá því á Facebook-síðu sinni í dag að hann sé hættur viðskiptum við Danske bank. Hann hvetur aðra til að gera slíkt hið sama.
Danske bank er ásakaður um að hafa stundað peningaþvætti fyrir u.þ.b. 890 milljarða íslenskra króna í gegnum útibúið sitt í Eistlandi. Kjarninn fjallaði um málið á dögunum.
Ásökunin, sem tengist hinu svokallaða Magnitskij-máli, snýr að starfsemi útibús Danske bank í Eistlandi. Útibúið átti að hafa tekið á móti stórum fjárhæðum frá erlendum viðskiptavinum, mörgum hverjum frá löndum sem hafa veikar varnir gegn peningaþvætti, líkt og Rússlandi, Moldóvu og Azerbaijan.
Bankinn bauð upp á þjónustu til erlendra viðskiptavina allt til ársins 2015 en byrjaði að draga úr starfseminni tveimur árum fyrr eftir að grunsemdir vöknuðu í kjölfar skýrslu frá innanbúðarmönnum árið 2013. Stuttu seinna hóf bankinn eigin rannsókn á málinu. Eftir töluverða fjölmiðlaumfjöllun um málið jók bankinn umfang rannsóknarinnar síðastliðinn september og skoðaði færslur viðskiptavina frá árinu 2007.
Danske bank svarar Davíð
Davíð segir að bankinn hafi þjónustað hann vel og hafa hann verið ánægður með þá þjónustu. Hann bendir aftur á móti á að stjórnendur ættu ekki aðeins að tryggja að farið sé að lögum heldur að starfsemin geti litið dagsins ljós. Hann telur að bankanum ekki hafa tekist það og hættir því viðskiptum við hann.
Hann segir í lok stöðuuppfærslunnar að ef aðeins ein manneskja sem hann þekkir hætti hjá Danske bank í kjölfar hennar þá verði hann ánægður.
Starfsmaður Danske bank svarar Davíð á þræði við færslu hans en í því svari kemur fram að þeim þyki leitt að hann vilji ekki vera viðskiptavinur hjá þeim lengur. Starfsmaðurinn segir að bankinn taki málið og ábyrgð þeirra að koma í veg fyrir peningaþvætti alvarlega. Þau vonist til að hann endurskoði ákvörðun sína.
Davíð er sonur Sigrúnar Davíðsdóttur, fréttakonu RÚV, og hálfbróðir Egils Helgasonar fjölmiðlamanns.
Kære Danske Bank. I har tjent mig godt, og jeg har været tilfreds med jeres service. I har arbejdet for mig og med...
Posted by David Helgason on Thursday, July 5, 2018