Verulega hefur dregið úr innleiðingarhalla Íslands, bæði hvað varðar EES-tilskipanir og reglugerðir. Miklar breytingar eru hjá Íslandi í frammistöðumati sem Eftirlitsstofnunar EFTA sendi frá sér í dag. Innleiðingarhalli tilskipana er 1 prósent samanborið við 1,8 prósent í síðasta frammistöðumati og hefur ekki verið minni frá nóvember 2010. Innleiðingarhalli reglugerða er 0,8 prósent samanborið við 1,2 prósent áður sem er að sama skapi sá lægsti frá árinu 2016 þegar ESA birti slíkar tölur í fyrsta sinn.
Frammistöðumatið sýnir stöðu innleiðingar á EES gerðum í EFTA ríkjunum, Íslandi, Liechtenstein og Noregi. Í tilkynningu frá ESA kemur fram að niðurstaðan staðfesti sterka áherslu ríkjanna á greiða framkvæmd EES samningsins. Ríkin eru hvött til þess að halda áfram á þessari braut.
Högni Kristjánsson, stjórnarmaður ESA, segir að þessi mikli árangur í að draga úr innleiðingarhalla tilskipana og reglugerða á Íslandi, sem og í öðrum EFTA ríkjum, lýsi vel traustu samstarfi EFTA ríkjanna og vilja þeirra til þess að vinna saman að öflugum innri markaði.
Jafnframt kemur fram í frammistöðumatinu að í tilviki Noregs dragi á ný úr innleiðingarhalla tilskipana sem er aðeins 0,1 prósent samanborið við 0,5 prósent áður. Innleiðingarhalli reglugerða sé nú 1,1 prósent en hafi verið 0,1 prósent áður.
Enn fremur dregur úr innleiðingarhalla í Liechtenstein en 0,7 prósent tilskipana hafa ekki verið innleiddar samanborið við 1,3 prósent áður. „Síðar í sumar mun Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birta frammistöðumat ríkja Evrópusambandsins. Uppfærð útgáfa frammistöðumats ESA, með samanburði við öll ríki EES svæðisins, verður birt á sama tíma,“ segir í tilkynningunni.