Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sendir drengjunum og þjálfara þeirra, sem fastir eru í Tham Luang-hellinum í Tælandi, og fjölskyldum kveðju á Twitter og segir að fólk sé að hugsa til þeirra víða um heim og að það geri Íslendingar einnig.
Tólf drengir og knattspyrnuþjálfari þeirra hafa fastir í hellinum undanfarna fimmtán daga. RÚV greinir frá því í dag að tveir þeirra séu nú komnir út. Sky fréttastofan hafi þetta eftir yfirvöldum.
Umfangsmiklar björgunaraðgerðir standa nú yfir en þær hófust í nótt. Samkvæmt RÚV segir yfirmaður björgunaraðgerða að þrettán færustu hellakafarar heims hafi verið fengnir til verksins, auk fimm taílenskra kafara.
„Tveir kafarar fylgja hverjum dreng út. Allir þrír bera súrefnisgrímur og fikra sig áfram eftir köðlum til að komast í gegnum þröngt rýmið. Talið er að hver ferð taki um sex klukkustundir og drengirnir þurfa að kafa, synda, vaða og klifra til að komast út. Læknir vitjaði þeirra í gær og segir þá alla vera við góða heilsu svo þær ættu að ráða við verkefnið. Ferðin er engu að síður mikil hættuför, vatnsyfirborðið hækkar sífellt og skemmst að minnast þess að kafari lést við björgunarstörf þar í vikunni.
Mikill viðbúnaður er á staðnum, fjölmennt lið lækna og hjúkrunarfólks er til taks og fjölmiðlar hafa verið beðnir um að veita björgunarfólki svigrúm,“ segir í fréttinni.
To the dear brave boys and coach trapped in the Tham Luang cave in Thailand and their families: People are thinking of you all over the world and so are we here in Iceland.
— Katrín Jakobsdóttir (@katrinjak) July 8, 2018