Boris Johnson utanríkisráðherra Bretlands hefur sagt af sér embætti. Johnson er þriðji ráðherrann í ríkisstjórn Theresu May forsætisráðherra á sólarhring sem segir af sér embætti, en David Davis ráðherra Brexit-mála gerði það í gær sem og Steve Baker ráðherra úrsagnar landsins úr ESB.
Aðeins nokkrir dagar eru liðnir frá því May tryggði stuðning ríkisstjórnarinnar við Brexit-áætlun sína en sú er talin of mild af mörgum innan flokksins.
Johnson mun hafa ráðfært sig við bakland sitt og tekið þá ákvörðun að hann gæti ekki tekið þátt í að selja niðurstöðu May. Staða hennar veikist töluvert, í hið minnsta hjá hörðustu andstæðingum ESB innan flokksins sem eru margir, með brotthvarfi Johnson, sem var afar áberandi í Brexit-kosningunni.
Í yfirlýsingu frá talsmanni Downingstrætis kemur fram að May þakki fráfarandi ráðherranum fyrir störf sín og að eftirmaður hans verði kynntur innan tíðar.
Takist May ekki að sannfæra alla þingmenn sína um áætlun sín gæti staða hennar sem forsætisráðherra Bretlands verið í hættu, en ef 15 prósent samflokksmanna hennar á þingi samþykkja ekki nýju ríkisstjórnina geta þau lagt fram vantrauststillögu á hendur May.
Davis hafði áður sagst ekki geta lengur unað við ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stefna að „mjúkri“ útgöngu úr Evrópusambandinu, en sú stefna miðar að fríverslunarsvæði milli Bretlands og ESB þar sem bæði svæðin lúta sömu reglum.
Í afsagnarbréfi sínu ítrekar Davis þessar áhyggjur og sagði stefnuna munu gefa Evrópusambandinu gríðarleg völd yfir breska hagkerfið og ekki gefa landinu sínu sjálfstjórn í neinum raunverulegum skilningi.