„Það hefur komið í ljós síðustu árin að Brexit eru mestu vandræði sem breskir stjórnmálamenn hafa lent í síðan breska heimsveldið var að leysast upp,“ segir Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor inntur eftir viðbrögðum við afsögnum þriggja
ráðherra í ríkisstjórn Theresu May í Bretlandi.Kjarninn greindi frá því í dag að Boris Johnson hefði sagt af sér embætti utanríkisráðherra. Hann varð þannig þriðji ráðherrann á innan við sólarhring til að hætta í ríkisstjórninni, en í gær tilkynntu þeir David Davis ráðherra Brexit-mála og Steve Baker ráðherra úrsagnar landsins úr ESB að þeir hefðu yfirgefið ríkisstjórnina.
Ólafur segir bresku þjóðina algjörlega klofna í tvær fylkingar um hvort hún vilji vera inni eða úti þegar kemur að Evrópusambandinu.
„Í rauninni er það alveg ótrúlegt að David Cameron hafi á sínum tíma reynt að leysa innanflokksátök í Íhaldsflokknum með því að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Öll þróunin síðan hefur sýnt hvað þetta er gríðarlega flokið mál. Það hefur náttúrlega komið í ljós að mjög margt af því sem að þeir sem studdu Brexit í þjóðatkvæðagreiðslunni héldu fram hefur bara reynst rangt. Margt af því sem Brexitsinnarnir héldu að útganga úr Evrópusambandinu myndi færa Bretum, það mun alls ekki gerast, þannig að núna erum við búin að horfa á Íhaldsflokkinn og reyndar breska stjórnmálamenn almennt engjast í tvö ár og vita ekkert í hvaða fót þeir eiga að stíga. Það er ennþá algjörlega ómögulegt að setja hver lendingin á endanum verður.“
Ólafur segir stöðu May bæði flókna og erfiða.
„Nú hefur breska stjórnin náð einhvers konar samkomulagi um einhvers konar mjúkt Brexit viðrist vera. Samt sem áður eru hörðustu Brexitsinnarnir í Íhaldsflokknum mjög ósáttir við þá niðurstöðu sem náttúrulega sýnir sig með afsögnina hjá Davis. Staða May er náttúrulega mjög flókin og erfið. Fyrir utan átökin í Íhaldsflokknum þá virðist líka Verkamannaflokkurinn tala svolítið út og suður í málinu. Þannig að ég held að það sé á þessu stigi ómögulegt að spá nokkru um það hver þróunin verður að öðru leyti en að hún veður mjög erfið.“