Reykjavíkurborg hefur ráðið fimm nýútskrifaða talmeinafræðinga til að þjónusta skóla borgarinnar. Ráðning þeirra á að stórbæta þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda og gera hana markvissari. Algengasta ástæða þess að leitað er til talmeinafræðinga er seinkun á málþroska eða framburðarfrávik.
Á árinu 2017 var samþykkt fjárveiting til að ráða talmeinafræðinga í öll hverfi borgarinnar og einnig hegðunarráðgjafa á grunnskólastigi með fyrirmynd í því sem gert hefur verið á leikskólastiginu.
Fyrsta árið verður lögð áhersla á að styðja þá með handleiðslu og skipuleggja hvernig þeir muni gagnast skólakerfinu sem best. Þeir munu fyrst um sinn hafa starfsaðstöðu í Þjónustumiðstöð Vestubæjar, Miðborgar og Hlíða en vera í nánu sambandi við skólaþjónustu í þeim hverfum sem þeir sinna. Eftir ár verða verkefni og staðsetning þeirra endurmetin.
Skotur hefur verið á talmeinafræðingum í gegnum tíðina á landinu og eitt af umkvörtunarefnum bæði kennara og leikskólakennara að hafa ekki nægt aðgengi að slíkum fyrir skólabörn. Foreldrar hafa einnig getað þurft að bíða fleiri mánuði eða upp undir ár eftir tíma hjá talmeinafræðingi fyrir börn sín. Slík töf er af sérfræðingum sögð geta haft áhrif á lestrarnám og félagsfærni, reyndar á grunn fyrir allt nám barna sem eiga við vanda að etja.
Á heimasíðu Félags talmeinafræðinga á Íslandi kemur fram að erfiðleikar í sambandi við mál, tal og tjáskipti geti komið fram hjá fólki á öllum aldri. Talmeinafræðingar vinna við greiningu og íhlutun á mál- og talmeinum, auk kyngingartregðu. Dæmi um vanda sem talmeinafræðingar sinna eru málþroskaröskun, framburðar- og hljóðkerfisraskanir, stam, raddveilur, tjáningarerfiðleika eftir heilablóðfall og kyngingartregða. Einnig meta þeir þörf fyrir og veita þjálfun í óhefðbundnum tjáskiptaleiðum. Ráðgjöf er mikilvægur þáttur í starfi talmeinafræðinga.