Dominic Raab hefur tekið við sem ráðherra Brexit-mála í ríkisstjórn Theresu May í Bretlandi. Ráðning Raab kemur í kjölfar afsagnar forvera hans David Davis í gærkvöldi. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Raab hefur verið yfirlýstur stuðningsmaður útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, en hann spilaði veigamikinn þátt í kosningabaráttu aðskilnaðarsinna í þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Samkvæmt Guardian mætti líta á ráðningu Raab sem sniðgöngu ríkisstjórnarinnar á Michael Gove, sem væri augljós valkostur í stöðuna.
Afsögn Davis kemur í kjölfar afsagnar annars ráðherra í ríkisstjórninni sem sá um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, Steve Baker. Vegna þeirra þurfti Theresa May að velja í nýjar ráðherrastöður á sama tíma og hún þarf að sannfæra alla stjórnarþingmenn til að styðja áætlun hennar.
Takist May ekki að sannfæra alla þingmenn sína gæti staða hennar sem forsætisráðherra Bretlands verið í hættu, en ef 15 prósent samflokksmanna hennar á þingi samþykkja ekki nýju ríkisstjórnina geta þau lagt fram vantrauststillögu á hendur May. Hins vegar er ólíklegt að mati Guardian að tillagan yrði samþykkt, nái hún í gegn.
Davis hafði áður sagst ekki geta lengur unað við ákvörðun ríkisstjórnarinnar að stefna að „mjúkri“ útgöngu úr Evrópusambandinu, en sú stefna miðar að fríverslunarsvæði milli Bretlands og ESB þar sem bæði svæðin lúta sömu reglum.
Í afsagnarbréfi sínu ítrekar Davis þessar áhyggjur og sagði stefnuna munu gefa Evrópusambandinu gríðarleg völd yfir breska hagkerfið og ekki gefa landinu sínu sjálfstjórn í neinum raunverulegum skilningi.