Snyrtivörufyrirtæki Kylie Jenner er nær tvöfalt verðmætara en Icelandair, en Jenner á 100% í fyrirtækinu. Til viðbótar við samninga við önnur fyrirtæki og sjónvarpstekjur er Jenner sjálf metin á nær 100 milljarða íslenskra króna.
Í umfjöllun tímaritsins Forbes um Jenner er farið yfir árangur snyrtivörufyrirtækis hennar, Kylie Cosmetics, sem hóf störf fyrir tveimur árum síðan með sölu á svokölluðu „varasetti“ (e. lip kit) sem samanstóð af varalit og varablýanti. Söluverðmæti fyrirtækisins nemur nú meira en 630 milljónum Bandaríkjadala, þar af 330 milljónum árið 2017, en það hefur síðan bætt við sölu á annars konar snyrtivörum, líkt og augnskugga og hyljara.
Samkvæmt reikningum Forbes er Kylie Cosmetics metið á tæplega 800 milljón Bandaríkjadala, en það jafngildir um 85 milljarða íslenskra króna. Væri fyrirtækið skráð í Kauphöll Íslands væri það þriðja verðmætasta fyrirtækið þar, á eftir Marel og Arion banka. Til samanburðar er markaðsvirði Icelandair í 47 milljörðum íslenskra króna, og er því Kylie Cosmetics tæplega tvöfalt verðmætara.
Einungis fimm starfsmenn
Rekstur snyrtivörufyrirtækisins reiðir sig mjög mikið á útvistun vinnuafls, en einungis fimm starfsmenn vinna þar í fullri vinnu auk tólf annarra í hlutavinnu. Vöruvinnslu og pökkun er útvistað til fyrirtækisins Seed Beauty og veffyrirtækið Shopify sér um sölu varanna. Fjármál fyrirtækisins og markaðssetning er svo í höndum móður Kylie, Kris Jenner. Samkvæmt Forbes gerir kostnaðaruppbyggingin fyrirtækinu kleift að hagnast gífurlega, en hagnaðurinn fer allur beint í vasa Jenner þar sem hún á 100% í fyrirtækinu.
Til viðbótar við arðinn sem hún hefur tekið úr fyrirtæki sínu, tekjur úr sjónvarpsþáttum auk tekna sem hún fær fyrir að kynna aðrar vörur líkt og Puma skó og PacSun fatnað er Jenner metin á um 900 milljón Bandaríkjadala, eða um 96 milljarða íslenskra króna. Með því er hún orðin yngsti einstaklingur á lista Forbes yfir ríkustu konur heimsins á eigin verðleikum, en Jenner verður 21 árs í haust.