Tryggingamiðstöðin hf. sendi frá sér afkomuviðvörun fyrir annan ársfjórðung 2018 fyrr í dag, en þar voru tekjur fyrirtækisins lækkaðar um 700 milljónir króna. Þetta er þriðja afkomuviðvörun í Kauphöllinni í vikunni, en tvær þeirra hafa verið frá tryggingafyrirtækjum.
Fyrst Icelandair, svo VÍS og TM
Á sunnudaginn birtist afkomuviðvörun Icelandair fyrir annan ársfjórðung, en afkomuspá flugfélagsins lækkaði um 30%. Samkvæmt félaginu vógu verðhækkanir á olíu án hækkunar á flugfargjöldum þyngst auk minnkandi samkeppnishæfni Íslands vegna sterkari krónu. Í kjölfar viðvöruninnar lækkuðu hlutabréf í félaginu um tæpan fjórðung á einum degi og OMX vísitalan sömuleiðis um 3,7%.
Tveimur dögum sinna birtist svo afkomuviðvörun VÍS, en vátryggingafélagið nefndi neikvæða þróun á hlutabréfamarkaði auk stórtjóna á tímabilinu sem helstu ástæðu lækkunarinnar. Vegna áðurnefndra ástæðna verður afkoma VÍS á öðrum ársfjórðungi um 1,1 milljarði lægri en áður var talið.
Loks birti TM nýja afkomuviðvörun í morgun, en samkvæmt félaginu eru helstu ástæður lækkunar afkomunarinnar einnig óhagstæð þróun á verðbréfamörkuðum ásamt aukningu í tjónakostnaði. Félagið hafði áður gert ráð fyrir um 500 milljóna króna hagnaði fyrir skatta, en hefur nú lækkað spá sína niður í 200 milljóna króna tap.