Kosningaherferðin sem hvatti til útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu var sektað um 61 þúsund pund vegna brota á breskum kosningalögum fyrir Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2016. Þetta kemur fram í frétt BBC.
Upp komst um brotið í kjölfar rannsóknar kosningaskrifstofu breska þingsins, en hún gegnir eftirlitshlutverki í kringum kosningar þar í landi. Skrifstofan sagði herferðina, sem kallaði sig Vote Leave, hafa fjármagnað baráttuna að hluta til með óskráðu fé í gegnum félagasamtökin BeLeave.
Hámark skráðra fjárframlaga í Brexit-þjóðaratkvæðagreiðslunni í Bretlandi, þar sem kosið var um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, nam sjö milljónum punda fyrir hvora fylkingu. Samkvæmt rannsókn kosningaskrifstofunnar runnu hins vegar tæp 680.00 pund til viðbótar frá BeLeave til kanadískrar markaðsskrifstofu sem annaðist kosningaherferð aðskilnaðarsinna.
Þessi upphæð kom upphaflega frá Vote Leave-herferðinni, en hún hefur áður haldið því fram að BeLeave væru algjörlega óháð samtök og því ekki háð sjö milljóna punda takmörkum þeirra.
„Með öllu ónákvæm“
Kosningaskrifstofan úrskurðaði hins vegar að BeLeave hafi ranglega tilkynnt umrædda 680.000 punda færslu sem sína eigin auk þess sem samtökin hafa rofið 10.000 punda hámark sem óskráð herferð kosningabaráttunnar. Vote Leave segir rannsóknina „með öllu ónákvæma“ og unna í pólitískum tilgangi.
Kanadíska markaðsfyrirtækið sem fékk umrædd fjárframlög notaði þau í auglýsingar á Facebbook, en samkvæmt BBC er ómögulegt að segja til um hversu stór áhrif þau höfðu á niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar, þar sem 51,9% kjósenda kusu með útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, voru einungis ráðgefandi, samkvæmt dómi hæstaréttar Bretlands fyrir tæpum tveimur árum síðan. Vegna þess getur enginn dómstóll kallað eftir nýrri atkvæðagreiðslu, einungis ríkisstjórnin gæti gert það með samþykki þingsins.
Skipulögð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu er þann 29. mars á næsta ári.