Miklatorg hf., eigandi IKEA á Íslandi, hagnaðist um 982,5 milljónir króna á síðasta rekstarári. Hagnaður félagsins árið þar á undan var 758,9 milljónir og jókst hann þannig um tæpar 224 milljónir á milli ára. Mbl.is greindi fyrst frá.
Í ársreikningi kemur fram að sölutekjur félagsins námu 10,3 milljörðum króna og jukust um tæplega 1,4 milljarða milli rekstrarára. Rekstrargjöldin jukust á sama tíma um liðlega milljarð króna. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, var 1,3 milljarðar króna og jókst um 322 milljónir króna á milli ára.
Eignir félagsins námu 2,2 milljörðum króna í lok rekstrarársins og var eigið fé 535 milljónir króna.
Stjórn félagsins leggur til að hluthöfum verði greiddar 500 milljónir króna í arð. Í stjórninni sitja eigendur félagsins, bræðurnir Jón og Sigurður Gísli Pálmasynir og Sigfús B. Ingimundarson.