Yfirvinnubann ljósmæðra hófst á miðnætti. Samninganefndir ljósmæðra og ríkisins eru stál í stál og hafa erfiðar viðræður staðið yfir í marga mánuði.
Félagar í Ljósmæðrafélagi Íslands samþykktu yfirvinnubannið með 90 prósent greiddra atkvæða í byrjun júlí en 80 prósent tóku þátt.
Talsmenn ríkisstjórnarinnar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Svandís Svavarsdóttir, sögðu í gær að ekki hefði komið til tals að setja lög á verkfallið. Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans segir að með yfirvinnubanninu færist vandinn víðar. Það gildi ekki aðeins um ljósmæður á meðgöngu- og sængurkvennagangi, heldur einnig á fæðingargangi, sem og hjá öðrum stofnunum sem hafa létt undir með Landspítalanum eftir að uppsagnir margra ljósmæðra hafa tekið gildi á undanförnum vikum.
„Það er hættuástand og deiluaðilar verða gjöra svo vel að setjast niður og eiga ekki að standa upp fyrr en þeir eru búnir að leysa þessa deilu,“ sagði Páll í samtali við RÚV í gærkvöldi.
Boðað hefur verið til fundar í kjaradeilunni eftir rúma fimm daga, á mánudag.