Kauphöllin hefur ákveðið að hætta að birta lista yfir tuttugu stærstu hluthafa í skráðum félögum vegna nýrra persónuverndarlaga. Frá þessu er greint í frétt Fréttablaðsins í morgun.
Samkvæmt fréttinni var skráðum hluthafafélögum greint frá ákvörðun Kauphallarinnar í tölvupósti, en þau fá öll helming árgjaldsins síns endurgreiddan vegna breytinganna.
Kauphöllin telur að útsending og birting hluthafalistans í núverandi mynd uppfylli ekki skilyrði nýrra laga um persónuvernd. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir þó í viðtali við Fréttablaðið að áfram verði sendar tilkynningar um viðskipti fjárhagslega tengdra aðila og ef eignarhlutir í félögum fara yfir tiltekin mörk, en slíkar upplýsingar séu birtar í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti. Páll telur þá upplýsingagjöf fullnægjandi.
Á hinn bóginn segir Páll að félögin geti sjáf birt listana á heimasíðum sínum, en leita þurfi þó samþykkis hjá viðkomandi hluthöfum.