Forseti Bandaríkjanna sagðist í gær vera tilbúinn til að leggja toll á allar kínverskar vörur sem fluttar væru inn til Bandaríkjanna. Seinna sama dag sagði fjármálaráðherra landsins bandarísku ríkisstjórnina íhuga að aflétta viðskiptabann á rússneska álfyrirtækið Rusal.
„Kína hefur okrað á okkur í langan tíma“
Í viðtali við CNBC í gær gaf Donald Trump forseti Bandaríkjanna til kynna að hann væri tilbúinn að auka tollskyldan innflutning frá Kína upp úr andvirði 34 milljarða Bandaríkjadala upp í 500 milljarða, en sú upphæð jafngildir virði heildarinnflutnings Bandaríkjanna frá landinu. „Ég er ekki að gera þetta vegna stjórnmálanna, ég er að gera þetta til þess að breyta rétt fyrir landið okkar,“ sagði Trump. „Kína hefur okrað á okkur í langan tíma.“
Í viðtalinu ítrekaði Trump að honum fannst illa hafa verið farið með Bandaríkin í mörgum málefnum, þar á meðal í alþjóðaviðskiptum og peningamála stefnu. Hins vegar sagði hann að álagningar tollanna á kínverskar vörur hafi ekki verið settar á með illum hug. Hann sagðist einnig líka mjög vel við Xi Jinping, forseta Kína, en vill þó meina að viðskiptakjörin milli landanna hafi verið ósanngjörn.
Hugsa um að aflétta banni
Seinna sama dag tilkynnti fréttastofa Reuters að Steven Mnuchin, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, hafi viðrað möguleikann á því að fjarlægja viðskiptabanni Bandaríkjanna á rússneska álfyrirtækið Rusal. Samkvæmt Mnuchin hafi áætlunin aldrei verið að „setja Rusal á hausinn.“
Þetta sagði Mnuchin í viðtali við fréttastofuna í Argentínu, rétt fyrir leiðtogafund fjármálaráðherra G20 ríkjanna. Samkvæmt fréttinni gefa ummælin til kynna að ríkisstjórn Bandaríkjanna hafi í huga að hjálpa álfyrirtækinu, sem reynt hefur að komast til móts við stjórnina eftir að fjármálaráðuneytið setti á viðskiptabann á það vegna eins eiganda þess, Oleg Deripaska.
Viðskiptabannið á að hafa skapað ringulreið á álmarkaðnum á heimsvísu, en nokkur lönd og fyrirtæki hafa síðan þá reynt að hnika til ákvörðun fjármálaráðuneytis Bandaríkjanna til að draga úr áhrifum á markaðnum.
Bandaríkin hafa nú þegar lagt 10% toll á innflutning áls frá Kanada, Evrópusambandinu og Mexíkó, en Kjarninn greindi nýlega frá lækkandi afkomu Alcoa vegna þessa. Óttast er að frekari tollalagning muni eiga sér stað á næstunni.