Viðskiptastríð Bandaríkjanna við Evrópusambandið, Rússland og Kína hefur leitt til lægra olíuverðs og aukið óvissu á hlutabréfa-og gjaldeyrismörkuðum. Samhliða því hefur norska krónan veikst töluvert, en búist er við áframhaldandi veikri stöðu gjaldmiðilsins á meðan á tollastríðinu stendur. Þetta kemur fram í fréttum Forbes og Dagens Næringsliv.
Lægra olíuverð
Helstu áhrif viðskiptastríðs landanna tveggja hingað til hefur verið kólnun á kínverskum hlutabréfamarkaði. Versnandi rekstrarskilyrði kínverskra fyrirtækja gæti leitt til Þar sem Kína er einn stærsti olíuneytandi á heimsvísu myndi væntur samdráttur þar í landi leiða til mikillar eftirspurnarminnkunar á hrávörum. Þessi ótti hefur þegar fælt fjárfesta frá olíufélögum, en olíuverð hefur farið lækkandi frá byrjun júlí. Óttast er að tollastríðið farið harðnandi á næstunni, en Bandaríkjaforseti hótaði frekari tollum á Kína í viðtali við CNBC í síðustu viku.
Verndarstefna Bandaríkjanna í alþjóðaviðskiptum hefur leitt til tollalagningar á fjölmörgum vörum í Evrópu, Kína, Rússlandi og Bandaríkjunum. Í lok maí setti ríkisstjórn Trumps á ál-og stáltolla á Evrópusambandið og Rússlandi, en báðir aðilar svöruðu í sömu mynt og lögðu tolla á bandarískar útflutningsvörur.
Forbes nefnir hins vegar að aðrir þættir hafi einnig leitt til olíuverðlækkunnar síðustu vikna, líkt og yfirlýsing OPEC-ríkja um aukna framleiðslu, auk framleiðslukipps leirsteinsolíu í Bandaríkjunum.
Álverðið lækkar
Olía er ekki eina hrávaran sem hefur orðið fyrir barðinu á viðskiptastríðinu, en heimsmarkaðsverð á áli hefur einnig farið lækkandi frá innleiðingu áltolla Bandaríkjanna í lok maí. Kjarninn fjallaði einnig nýlega um versnandi rekstrarniðurstöðu álfyrirtækisins Alcoa í kjölfar áltolla í lok maí, en hlutabréfaverð fyrirtækisins féllu eftir að það lækkaði afkomuspá sína fyrir árið um 14%.
Norska krónan veikst
Samhliða verðlækkun á hrávörum hefur norska krónan veikst töluvert. Samkvæmt viðmælanda norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv (DN) hefur viðskiptastríðið einnig haft bein áhrif á gengi krónunnar, en aukin óvissa á mörkuðum hefur hindrað nýjar fjárfestingar til skamms tíma og haft neikvæð áhrif á hlutabréfa-og gjaldeyrismarkaðinn. Í viðtali við DN telur viðmælandinn að norska krónan muni haldast veik nokkurn tíma og gæti jafnvel veikst enn meira, þar sem mögulegt er að viðskiptastríðið muni harðna á næstu vikum.