Hluthafar í Eimskipafélagi Íslands samþykktu í gær að lækka hlutafé félagsins um 13 milljónir króna og heimiluðu kaup á eigin bréfum upp að 4,3 milljarða að gangvirði. Þetta kemur fram í niðurstöðum hluthafafundar Eimskipa sem haldinn var í gær eftirmiðdag og birtur á vef Kauphallarinnar.
Á fundinum voru tvær tillögur bornar fram, annars vegar um lækkun hlutafjár og hins vegar um kaup á eigin hlutum. Báðar voru þær samþykktar, en samkvæmt þeirri fyrri verður hlutafé félagsins lækkað úr 200 milljónum króna niður í 187 milljónir króna. Samþykkt tillögunar veltir þó á hvort félagið fái undanþágu frá inköllunarskyldu frá stjórnvöldum, en annars þarf fyrirhuguð lækkun að birtast í Lögbirtingablaðinu.
Seinni tillagan sem lögð var fram á fundinum snýr að kaupum á eigin bréfum, en samþykkt var að stjórn félagsins gæti eignast eigin hluti að andvirði allt að 18 milljóna króna að nafnvirði, sem samsavara um 4,3 milljörðum að gangvirði, innan næstu 18 mánaða. Heimildin takmarkast þó við að eignarhald félagsins og dótturfélaga þess fari ekki umfram 10% af heildarhlutafé félagsins á hverjum tíma. Með þessarri tillögu falla jafnframt aðrar heimildir til kaupa á eigin bréfum niður innan fyrirtækisins.
Ris eftir kaup Samherja
Kjarninn fjallaði nýlega um umsvifamikil eigendaskipti í Eimskipum, en systurfélag Samherja keypti 25,3% hlut í félaginu á 11 milljarða íslenskra króna af bandaríska fjárfestingasjóðnum Yucaipa. Í kjölfar kaupanna hækkuðu hlutabréf Eimskips töluvert, en hlutabréfaverð Eimskips hefur nú hækkað um 17% frá tilkynningunni um kaup Samherja þann 19. júní síðastliðinn.