Flugmenn og flugumferðarstjórar í Evrópu hafa reglulega lagt niður störf það sem af er ári, en talið er að áætlanir milljónir ferðamanna hafi raskast vegna þeirra auk þess sem vænta má fleiri verkfalla. Samkvæmt hagsmunasamtökum flugfélaga er tjón vegna verkfallanna gríðarlegt og nemur milljörðum evra, en verkalýðsfélögin segja launað veikindaleyfi og aflétting á ströngum söluskilyrðum vera meðal meginmarkmiða starfsmannanna.
Hrina verkfalla hjá Ryanair
Samkvæmt frétt Evening Standard aflýsti írska flugfélagið Ryanair 24 flugum til og frá Írlands síðasta föstudag vegna verkfalls flugmanna félagsins. Verkföllin munu svo halda áfram í dag, en flugfreyjur og flugþjónar munu einnig leggja niður störf í Belgíu, Portúgal og á Spáni í dag og á morgun.
Flugfélagið hefur orðið fyrir tíðum verkföllum eftir að hafa ákveðið að samþykkja myndun verkalýðsfélaga starfsmanna sinna í desember á síðasta ári. Enn fremur hafa verkföll flugumferðarstjóra leitt til aflýsingar á 2.500 flugum hjá félaginu á fyrsta ársfjórðungi ársins. Á sama tíma lækkaði hlutfall stundvísra fluga Ryanair svo úr 89% niður í 75%. Framkvæmdastjóri félagsins, Michael O‘Leary, hefur hótað að segja upp starfsmönnum sínum ef verkföllin halda áfram. Hann segir hætta á að vetraráætlun flugfélagsins raskist vegna verkfallanna, „sem gæti leitt til minnkunar flotans á viðeigandi flugvöllum auk uppsagna,“ samkvæmt Financial Times.
O‘Leary er þó sérstaklega í nöp við flugumferðarstjóra, en hann sagði þá hafa valdið „áætlunum flugfélögunum viðamiklum skaða“ og kallaði þá „verstu lögbrjótana.“ O‘Leary hefur nú þegar sagst munu leggja fram formlega kvörtun til Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vegna Franskra flugumferðarstjórar sem voru í verkfalli níu helgar á fyrsta ársfjórðungi.
13,4 milljarða evra tjón síðan 2010
Hagsmunasamtökin Airlines for Europe sendu svo frá sér fréttatilkynningu í dag, en samkvæmt henni hafa flugumferðarstjórar í Evrópu lagt niður störf í 29 daga á fyrstu sex mánuðum ársins, þar sem 22 þeirra voru í Frakklandi. Samtökin telja aflýsingarnar hafa haft áhrif á milljónir ferðamanna og lýsa þau yfir áhyggjum af því fjárhagstjóni sem verkföllin kunna að bera með sér nú á háannatíma ferðaþjónustunnar. Samtökin vitna einnig í nýrri skýrslu sem PriceWaterhouseCooper vann fyrir þau, en þar er efnahagslegt tjón flugverkfalla á síðustu átta árum metið á 13,4 milljarða evra.
Ólaunað veikindaleyfi og sölumarkmið á skafmiðum
Samkvæmt regnhlífarsamtökum verkalýðsfélaga starfsmanna í samgöngum, ITF, snúast verkföll starfsmanna Ryanair meðal annars um að geta fengið launað veikindaleyfi og þurfa ekki að fylgja hörðum sölumarkmiðum. The Guardian greindi frá þessum sölumarkmiðum í fyrra, en samkvæmt þeim varð starfsmönnum fyrirtækisins refsað ef þeir náðu ekki að selja ákveðið magn af ilmvatni og skafmiðum.
Samkvæmt frétt The Independent snýst kjarabarátta flugmanna Ryanair hins vegar um viðurkenningu á starfsreynslu, launað sumarleyfi og flutningur starfsmanna milli evrópskra og Norður-afrískra flugstöðva.
ITF segir starfsmenn fyrirtækisins hafa unnið við þessar aðstæður of lengi án þess að nein breyting hafi orðið þar á, þrátt fyrir yfirlýsingar fyrirtækisins um að svo muni verða. Ryanair gerir hins vegar lítið úr kröfum ITF og kallar þær „tilgangslausar,“ auk þess sem félagið bendir á margvísleg fríðindi sem starfsmenn þess njóta.