Atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara milli Ljósmæðrafélags Íslands og ríkisstjórnarinnar var samþykkt af ljósmæðrum fyrr í dag með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Þetta kemur fram á heimasíðu Ríkissáttasemjara.
Samkvæmt Ríkissáttasemjara var tillagan samþykkt með 95,1% atkvæða, en 247 voru á kjörskrá og greiddu 224 þeirra atkvæði, eða 91%. Fjármála- og efnahagsráðherra samþykkti einnig miðlunartillöguna. Nýr kjarasamningur hefur því komist á og mun hann gilda til 31. mars á næsta ári.
Kjarninn greindi frá miðlunartillögu Ríkissáttasemjara á laugardagskvöldið, en með henni ákvað Ljósmæðrafélagið að aflýsa yfirvinnubanninu sínu. Samkvæmt Ríkissáttasemjara felur tillagan í grundavallaratriðum í sér sambærilegar hækkanir og samningur Ljósmæðrafélagsins og ríkisstjórnarinnar frá 29. maí.
Einnig felur tillagan í sér að sérstökum gerðardómi verði falið að kveða upp úr um það hvort og þá að hvaða leyti launasetning stéttarinnar sé í samræmi við álag, menntun og inntak stafs ljósmæðra. Dómurinn verður skipaður af Ríkissáttasemjara og skal hann ljúka störfum eigi síðar en fyrsta september næstkomandi.