Steinar Berg Ísleifsson vann í dag meiðyrðamál gegn Bubba Morthens og RÚV fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Sjö mismunandi ummæli Bubba um Steinar voru dæmt dauð og ómerk og honum og RÚV gert að greiða Steinari 250 þúsund krónur hvor í miskabætur með dráttarvöxtum.
Ríkisútvarpinu er óheimilt samkvæmt dómnum að sýna eða birta með nokkrum hætti þáttinn þar sem hluti ummælanna var látinn falla í þáttaröðinni Popp- og rokksaga Íslands árið 2016. Skal RÚV einnig greiða Steinari 250 þúsund í miskabætur. Þá er stofnuninni skylt að birta dómsorðin í dagskrá sjónvarpsins og forsendur, sem og á ruv.is innan tveggja vikna. Bubbi og RÚV greiða einnig 2 milljónir í málskostnað.
Í þáttunum sagði Bubbi að Steinar Berg, sem var útgefandi platna Utangarðsmanna, hefði „mokgrætt“ á honum í upphafi ferils og „nýtt sér reynsluleysi“ þeirra, „þekkingarleysi“ og „yfirburðastöðu“.
Þá komu í kjölfar þáttarins ummæli á Facebook sem einnig eru dæmd dauð og ómerk, sem og ummæli við fréttir annarra miðla um málið.
Í niðurstöðu hérðasdóms segir meðal annars: „Dómurinn telur að með þessari niðurstöðu sé tjáningarfrelsi stefnda Ásbjörns ekki skert umfram það sem er nauðsynlegt til verndar mannorði stefnanda enda hefur stefndi hvorki fært sönnur á neina þeirra fullyrðinga sem felast í þeim ummælum hans sem hafa verið ómerkt né fært fram neina réttlætingu fyrir því að hafa vegið á þennan hátt að æru stefnanda. Að mati dómsins hafði stefndi Ásbjörn ekki heldur ástæðu til að ætla að fullyrðingar hans um meintan refsiverðan verknað stefnanda væru réttar. Hann gat ekki „verið í góðri trú“ eins og það er kallað. Ummæli hans eru því ekki heldur innan marka tjáningarfrelsis hans af þeim sökum.“