Hagnaður Landsbankans á fyrri árshelmingi nam 11,6 milljörðum íslenskra króna og dróst saman um 9% frá því á sama tímabili í fyrra. Hagnaðarminnkunin skýrist bæði af minni tekjum og auknum rekstrarkostnaði, en bankinn segir óhagstæðar aðstæður á verðbréfamörkuðum og samningsbundna launahækkun starfsmanna hans hafa haft megináhrif. Þetta kemur fram í hálfsársuppgjöri bankans sem birtist í gær.
Rekstrartekjur bankans á fyrstu sex mánuðum ársins námu 29 milljörðum króna, í samanburði við 29,3 milljarða króna á fyrri árshelmingi 2017. Aðrar rekstrartekjur lækkuðu úr 5,4 milljörðum króna niður í 3,9 milljarða króna á sama tímabili, en samkvæmt bankanum er samdrátturinn aðallega tilkominn vegna óhagstæðra aðstæðna á verðbréfamörkuðum.
Slæmt gengi á hlutabréfamarkaðnum
Kjarninn greindi frá niðursveiflu undanfarinna mánaða í skráðum fyrirtækjum nýlega, þar sem OMX-vísitala Kauphallarinnar lækkaði nær stöðugt allan annan ársfjórðunginn. Margir þættir voru þar að baki, þar á meðal óbreytt staða stýrivaxta Seðlabankans, fjöldi stórtjóna sem lentu á tryggingafyrirtækjunum og þrengri rekstraraðstæður hjá Icelandair. Samkvæmt ársreikningi Landsbankans eru tæpir 28 milljarðar bundnir í innlendum hlutabréfum.
Minni vaxtamunur
Munur á inn-og útlánsvöxtum bankans nam 2,7% á fyrri helmingi ársins og hefur aukist um 0,2 prósentustig frá því á fyrri árshelmingi í fyrra. Vaxtamunurinn hefur þó ekki náð jafnmiklum hæðum og hjá Íslandsbanka og Arion, en samkvæmt ársreikningum bankanna tveggja stóð munur á inn-og útlánsvöxtum þeirra í 2,9%.
Kynning á uppgjöri Landsbankans
Meiri kostnaður vegna launahækkana
Samkvæmt uppgjöri bankans hækkaði rekstrarkostnaður þess um 0,9% milli fyrri árshelminga 2017 og 2018 og nemur nú 12,2 milljörðum íslenskra króna. Helsti þáttur kostnaðaraukningarinnar voru samningsbundnar launahækkanir, en launakostnaður félagsins í ár nam 7,5 milljörðum samanborið við 7,1 milljarð króna á sama tímabili í fyrra. Launahækkanirnar sem um ræðir voru meðal félagsmanna Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Samkvæmt kjarasamningi þeirra hækkuðu launin annars vegar um 5% þann fyrsta maí 2017 og svo aftur um 5% nákvæmlega ári síðar.
Á móti hækkandi launakostnaði lækkaði svo annar rekstrarkostnaður úr 4,9 milljörðum króna niður í 4,6 milljarða króna á sama tímabili.