WOW air er ekki lengur eina flugfélagið sem flýgur milli Pittsburgh í Bandaríkjunum og Evrópu allan ársins hring, en British Airways hefur byrjað að fljúga til borgarinnar frá London fjórum sinnum í viku. Þetta kemur fram í frétt á vef Túrista.
Samkvæmt fréttinni hefur WOW air verið eina flugfélagið sem boðið hefur upp á heilsársflug milli Pittsburgh og Evrópu frá jómfrúarferð félagsins í júní í fyrra. Fyrir það hafi Evrópuflug borgarinnar aðeins takmarkast við sumarferðir til Parísar og Frankfurt. WOW flaug fjórum sinnum í viku til borgarinnar, en sætanýting í þeim flugum var 75,5 prósent.
Í gær boðaði svo British Airways komu sína til borgarinnar. Líkt og WOW ætlar breska félagið að fljúga þangað fjórum sinnum í viku frá Heathrow flugvelli við London.
Pittsburgh er önnur stærsta borg Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, en íbúar hennar eru rúmlega 300 þúsund.Frá jómfrúarferð sinni og allt til ársloka 2017 flutti WOW air samtals 41.095 farþega til og frá borginni.
Kjarninn hefur áður fjallað um rekstur WOW air, en flugfélagið tapaði um 2,37 milljörðum íslenskra króna í fyrra. Að sögn Skúla Mogensen, forstjóra og stofnanda flugfélagsins, var meginástæða verri rekstrar ytri markaðsaðstæður, svo sem aukin samkeppni á lykilmörkuðum félagsins.