Hagfræðingurinn Magnús Árni Skúlason segir mikla vöntun vera á íbúðum á verðbilinu 30-40 milljónir á húsnæðismarkaði fyrir ungt fólk, sem væri stærsti aldurshópurinn í samfélaginu. Þetta sagði Magnús Árni í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun.
Leigukynslóðin
Magnús, sem vinnur hjá ráðgjafafyrirtækinu Reykjavík Economics, var spurður í viðtalinu hvort það sé borin von fyrir foreldra að senda börnin sín að heiman. Hann tekur undir áhyggjur um verri stöðu ungs fólks á íbúðamarkaði á síðustu árum og segir þúsaldarkynslóðina, sem er á þrítugsaldri þessa stundina, oft vera kallaða „leigukynslóðina.“ Þetta sé hins vegar sama þróunin og er að eiga sér stað annars staðar í Evrópu og í Bandaríkjunum, víða eigi ungt fólk erfiðara með að kaupa íbúðir.
Á hinn bóginn segir Magnús Árni að fyrstu kaupendum hafi verið að fjölga, að hluta til vegna fjölda nýrra úrræða sem hjálpa ungu fólki að kaupa húsnæði. Samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár voru um 26 prósent allra kaupsamninga á fyrsta ársfjórðungi fyrstu kaupendur, en á Suðurnesjum var hlutfallið um 34%. Meirihluti íbúða í viðskiptum séu á verðbilinu 30-50 milljónir, en markaðurinn þynnist mjög hratt þegar íbúðaverð fer yfir 60 milljónir.
Stærsti aldurshópurinn
Magnús segir einnig mesta eftirspurn vera eftir 30-40 milljón króna íbúðum, en hann telur framboð þeirra ekki vera nægt í dag. Því til stuðnings nefnir hann lágt hlutfall íbúða sem seljast á undir 25 milljónir, þær séu 2% í dag miðað við um 25% árið 2015. Fyrstu kaupendur eru margir á aldrinum 20-29 ára, en samkvæmt Magnúsi er það stærsti aldurshópurinn í samfélaginu.
Annars konar hippatímabil
Hins vegar bendir Magnús einnig á að tíðarandinn hafi breyst og ungu fólki hafi ekki jafnmikið á móti því að búa á leigumarkaði og nýta deilihagkerfið. Hann segir fólk hafa aðrar áherslur nú á dögum og kallar þetta „annars konar hippatímabil.“ Þar noti fólk sameignir í meira mæli og fresta gjarnan barneignum, en það komi alltaf að því að maður þurfi að búa einhvers staðar.
Alltaf erfitt að kaupa fyrstu íbúð
Aðspurður hvort hann teldi þetta vera rétta tímann til að eignast íbúð segir Magnús að ekkert bendi til þess að fasteignaverð muni lækka í framtíðinni. Akkúrat núna hafi vextir aldrei verið lægri, kaupmáttur verið mjög hár og ýmis úrræði séu fyrir fyrstu kaupendur, en það hafi alltaf verið erfitt að kaupa fyrstu íbúð.