Samkeppniseftirlitið samþykkti kaup N1 á öllu hlutafé í Festi hf. með skilyrðum sem N1 féllst á með eftirlitinu, eins og kom fram í tilkynningu frá Kauphöllinni í gærkvöldi. Skilyrðin eru þau sömu og N1 lagði til fyrir mánuði síðan, að viðbættri sölu á stöðvum fyrirtækisins í Staldrinu og Vatnagörðum. Málið gæti haft þýðingu fyrir fyrirhuguð kaup Haga á Olís, en vænta má niðurstaðna úr þeirri yfirtöku á næstu dögum.
Skilyrðin sem N1 og Samkeppniseftirlitið féllust á til að yfirtaka olíufyrirtækisins á smásölufélaginu voru eftirfarandi:
- Að aðgengi nýrra endurseljenda að fljótandi eldsneyti í heildsölu yrði aukið
- Að aðgengi að þjónustu hjá Olíudreifingunni, sem N1 á 60% í, yrði aukið.
- Sala á stöðvum Dælunnar við Fellsmúla og Staldrið í Reykjavík, auk Hæðarsmára 8 í Kópavogi
- Sala á tveimur sjáfsafgreiðslustöðvum undir merkjum N1 við Salaveg í Kópavogi og Vatnagarða í Reykjavík
- Sala á verslun Kjarvals á Hellu.
Þessi skilyrði eru lík tillögunum sem N1 lagði fram til Samkeppniseftirlitsins fyrir rúmum mánuði síðan til að liðka fyrir yfirtökuna, en sölu á sjáfsafgreiðslustöðvunum í Staldrinu og Vatnagörðum hefur verið bætt við.
Samkvæmt tilkynningu N1 í Kauphöllinni nemur kaupverð olíufyrirtækisins á Festi 23,7 milljörðum króna, en það greiðist annars vegar með afhendingu tæplega 80 milljón hluta í N1 á genginu 115 og hins vegar með 14,6 milljarða í reiðufé. N1 munu einnig greiða vexti af öllum skuldum Festis fra 28. febrúar síðastliðinn og munu eigendur smásölufyrirtækisins eignast 24,1% alls hlutafjár N1, en sölubann verður á þeim hlutum út árið.
Rúmlega tvöföld framlegð
Við yfirtökuna er spáð að framlegð N1 muni rúmlega tvöfaldast á þessu rekstrarári, en búist er við að hún nemi um 7,5 milljörðum króna. Af þeirri upphæð er búist við að 500-600 milljónir króna munu verða til vegna samlegðaráhrifa fyrirtækjanna tveggja.
Fyrsta af þremur
Yfirtakan er fyrsti samruninn sem gengið hefur í gegn af þremur sem fyrirhugaðir voru í fyrra milli olíufélaga og smásölufyrirtæki. Hinar tvær voru kaup Haga á Olís og Skeljungs á Basko. Eins og Kjarninn greindi frá í fyrra um málið var þessi ætlaða samþjöppun viðbrögð við þeim breytingum sem opnun Costco og H&M hafði á íslenskan smásölumarkað.
Ekki hafa hin kaupin enn gengið eftir, en Vísir greindi frá því að Skeljungur hafi ákveðið að slíta samningaviðræðum sínum um kaup á Basko fyrir tveimur vikum síðan. Þar sagði Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs kaupin vera háð ýmsum forsendum og fyrirvörum sem ekki gengu eftir.
Fyrirhuguð kaup Haga á Olís eru hins vegar enn til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í mánuðinum mun koma í ljós á næstu dögum hvort samruninn fari í gegn eða ekki, en það veltur á því hvort Samkeppniseftirlitið samþykki tillögur Haga. Þær tillögur fela í sér sölu á tveimur Bónusverslunum, einni fasteign félagsins þar sem rekin er Bónusverslun, tveggja bensínstöðva Olís auk einnar stöðvar ÓB. Fari svo að eftirlitið fallist ekki á þessar tillögur verður samruninn ógildur.