Hlutabréfaverð hefur hækkað um 11,5% í N1 og 6,6% í Högum það sem af er dags. Hækkanirnar eru fyrstu viðbrögð markaðarins eftir fréttir um samþykkt Samkeppniseftirlitsins á kaupum N1 á Festi í gær.
Kjarninn greindi frá kaupunum í morgun, en búist er við að framlegð olíufyrirtækisins muni rúmlega tvöfaldast við hann og nema um 7,5 milljörðum í ár. Þar af er talið að 500-600 milljónir af þeirri upphæð verði vegna samlegðaráhrifa. Festi er smásölufyrirtæki sem rekur 29 verslanir undir merkjum Krónunnar, Kr, ELKO, Nóatúns og Kjarvals.
Yfirtakan er fyrsti samruninn sem gengið hefur í gegn milli olíufélags og smásölufyrirtækis eftir opnun Costco og H&M. Skeljungur hafði einnig lýst yfir áhuga á að kaupa fyrirtækið Basko, en hætti við kaupin fyrir tveimur vikum síðan.
Hagar hafa einnig reynt að kaupa Olís, en kaupin bíða enn endanlegs úrskurðar Samkeppniseftirlitsins. Hagar hafa lagt fram tillögur um sölu á þremur Bónusverslunum, tveimur bensínstöðvum Olís auk einnar stöðvar ÓB til að koma samrunanum í gegn. Búist er við svörum frá Samkeppniseftirlitinu hvort tillögurnar séu nægar til að heimila samrunann eða hvort hann verði dæmdur ógildur.