Áætlaðar óskráðar gistinætur í gegnum vefsíður á borð við Airbnb og Homeaway voru 19% færri síðastliðinn júní heldur en á sama tíma í fyrra. Mesta breytingin er á höfuðborgarsvæðinu, en þar er áætlað að gistinóttum hafi fækkað um 26% á tímabilinu. Þetta kemur fram þegar rýnt er í nýbirtar tölur Hagstofu.
Kjarninn fjallaði í gær um tölurnar, en samkvæmt þeim fækkaði skráðum gistinóttum erlendra ferðamanna milli júnímánaða 2017 og 2018, en það er í fyrsta skipti sem slíkt gerist í heilan áratug. Fækkunin var líka sú mesta sem mælst hefur hjá Hagstofunni, en tölurnar ná aftur til ársins 1998.
Umræddar tölur ná hins vegar ekki til óskráðra gistinga, líkt og heimagistingar í kringum vefsíðurnar Airbnb og Homeaway. Frá byrjun síðasta árs hefur Hagstofa hins vegar áætlað umfang slíkra óskráðra gistinga, en það gerir hún með hjálp gistináttatalningarinnar auk niðurstaðna úr landamærarannsókn erlendra ferðamanna sem framkvæmd er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
19 prósenta fækkun á Íslandi
Samkvæmt áætlunum Hagstofu voru óskráðar gistinætur sem greiddar voru í gegnum vefsíður um 191 þúsund talsins í júní síðastliðnum. Þetta er 19% færri gistingar en áætlaðar voru fyrir júní 2017, en þá var talið að þær næmu 234 þúsundum.
Hins vegar er breytingin milli júnímánaða misjöfn eftir landshlutum. Til að mynda jukust óskráðar gistingar um 6 prósent á Vesturlandi og drógust lítillega saman um 3 prósent á Austurlandi. Á Suðurlandi og Norðurlandi vestra drógust þær einnig saman um 5-6 prósent, en samdrátturinn nam 10 prósentum á Suðurnesjum og 14 prósentum á Norðurlandi eystra. Á Vestfjörðum fækkaði óskráðum gistingum um 18 prósent, en mest var fækkunin á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún nam rúmum 26 prósentum milli júnímánaða 2017 og 2018.
Hefur áhrif á fasteignaverð
Mikið hefur verið rætt um áhrif Airbnb á leigu-og gistimarkað hér á landi, en samkvæmt skýrslu Íslandsbanka sem birt var í apríl síðastliðnum er talið að hlutdeild vefsíðunnnar á gistiþjónustumarkaði nemi um 30 prósentum. Hlutdeildin hefur vaxið hratt á undanförnum árum, en Íbúðalánasjóður ályktaði í skýrslu sinni fyrr í sumar að svokölluð Airbnb-væðing ferðaþjónustunnar hafi aukið viðnámsþrótt greinarinnar gagnvart ytri áföllum á kostnað stöðugleika á íbúðamarkaði. Þar að auki taldi sjóðurinn aukin skammtímaleiga í gegnum heimasíðuna hafa haft töluverð áhrif á hækkun fasteignaverðs hérlendis á árunum 2015-2017.
„Öryggisventill“ fyrir ferðamannaiðnaðinn
Hagfræðingur á vegum OECD sagði heimagistingu, eins og þá sem Airbnb býður upp á, vera heppilega fyrir íslenska hagkerfið á blaðamannafundi í fyrra. Samkvæmt honum virkuðu Airbnb-gistingar eins og „öryggisventill“ fyrir ferðamannaiðnaðinn, þar sem sveigjanlegt eðli hennar geri ferðaþjónustuna betur í stakk búna til að taka á móti breytilegum fjölda ferðamanna.