Advania og Vertonet, hagsmunasamtök kvenna í upplýsingatækni, hyggjast vinna saman að því að auka hlutfall kvenna í tæknigeiranum. Advania hefur gerst einn af bakhjörlum samtakanna og tekur þátt í viðburðum til að efla samstöðu kvenna í greininni.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Advania og Vertonet, en samtökin voru stofnuð í apríl og er markmiðið að tengja konur innan tæknigeirans betur saman og fræðast í leiðinni.
Á fjölmennum stofnfundi samtakanna varð ljóst að mikill samhugur ríki um nauðsyn þess að auka hlutfall kvenna í tæknigeiranum. „Megin tilgangur félagsins er því að vinda ofan af þeim kynjahalla sem nú ríkir í greininni og vekja áhuga kvenna á þeim fjölbreyttu störfum sem rúmast innan geirans,“ segir í tilkynningunni.
Advania hefur því gert bakhjarlasamning við Vertonet um að styrkja starf félagsins enn frekar.
Sett hefur verið saman aðgerðaráætlun og viðburðarík dagskrá á næstu mánuðum þar sem konum í geiranum gefst færi á að kynnast betur og efla tengslanetið. Fyrsti viðburður verður í húsakynnum Advania í september en nánar verður sagt frá dagskránni á vefsíðu Vertonet.
„Við teljum nauðsynlegt að auka fjölbreytni í starfsgreininni og fá fleiri konur að borðinu til að þróa og rýna í tæknilausnir framtíðarinnar. Í tæknigeiranum eru gríðarlega fjölbreytt störf sem kalla á ólíka sýn og reynslu. Hraðinn í upplýsingatæknigeiranum er mikill og því fylgja miklir möguleikar til starfsþróunar og sérhæfingar. Fólk sem hefur áhuga á spennandi starfsumhverfi ætti að kynna sér fjölbreyttnina í tæknigeiranum,“ segir Sesselía Birgisdóttir markaðsstjóri Advania.