Lífeyrissjóðirnir juku umsvif sín um þrjú prósent á innlendum hlutabréfamarkaði í júní, samkvæmt nýbirtum hagtölum Seðlabankans. Samhliða því bættu sjóðirnir við sig erlendum eignum, en erlent eignahlutfall þeirra hélst óbreytt frá því í maí.
Samkvæmt Seðlabankanum námu eignir lífeyrissjóða um 4.079 milljörðum króna í lok júní og hækkuðu um 22 milljarða frá maílokum. Innlendar eignir lífeyrissjóðanna voru þar nær þrír fjórðu hlutar heildareigna eða um 3.057 milljarðar króna.
Af þeim þrjú þúsund milljörðum voru tæpar 275 þeirra bundnar í innlendri hlutabréfaeign, en það er níu milljörðum meira en mánuði áður. Aukningin nam rúmum þremur prósentum og hefur hún ekki verið jafnmikil frá því í október í fyrra.
Kjarninn hefur áður fjallað um minnkandi áhrif lífeyrissjóðanna á innlendum hlutabréfamarkaði, en viðmælendur hans töldu júlímánuð í Kauphöllinni hafa einkennst af minnkandi kaupþrýstingi frá þeim auk margra annarra efnameiri fjárfesta.
Þegar litið er til síðustu ára má líka sjá að innlendar eignir lífeyrissjóða á hlutabréfamarkaði hafa minnkað töluvert. Samt sem áður virðist sem að hægst hafi á sölu innlendra hlutabréfa á síðustu mánuðum, þrátt fyrir yfirlýst markmið sjóðanna um að auka við erlendu eignarhlutdeild sína á næstu misserum.