Um mánaðarmótin síðastliðin tók í gildi reglugerð dómsmálaráðherra um breytingu á skilyrðum og starfshætti gjafsóknarnefndar en reglur um gjafsókn segja til um í hvaða tilvikum kostnaður við dómsmál einstaklings er greitt úr ríkissjóði.
Breytingin felur í sér hækkun viðmiðunarfjárhæða gjafsóknar. Þannig mun við mat á því hvort veita skuli einstaklingi gjafsókn framvegis miða við að tekjur hans nemi ekki hærri fjárhæð en kr. 3.600.000 í stað kr. 2.000.000 áður. Sama upphæð fyrir hjón eða sambúðarfólk hækkar úr kr. 3.000.000 í kr. 5.400.000. Þá skulu viðmiðunarmörk tekna hækka um kr. 400.000 fyrir hvert barn á framfæri umsækjanda í stað kr. 250.000 áður. Loks er kveðið á um það í reglugerðinni að framangreindar fjárhæðir taki breytingum miðað við vísitölu neysluverðs 1. janúar ár hvert.
Af hverju skiptir þetta máli?
Lágar fjárhæðir í reglum um gjafsókn hafa lengi verið gagnrýndar. Ragnar Aðalsteinsson lögmaður segir til dæmis í nýlegu viðtali við Stundina að gjafsóknarkerfið sé ónýtt. „Við hér á stofunni höfum fengið til okkar fólk sem hefur viljað áfrýja málum sem það hefur tapað í í héraði, fólk sem ekki hefur getað borgað neitt. Við höfum þá sótt um gjafsókn fyrir það en fengið neitun með þeim röksemdum að héraðsdómurinn sé svo góður, það þurfi ekki að áfrýja málinu. Það er hins vegar ekki gjafsóknarnefndar að taka afstöðu til þess en þeir telja að svo sé. Þá höfum við þurft að áfrýja málinu á okkar kostnað og á okkar áhættu. Við höfum hins vegar unnið slík mál, fleiri en eitt og fleiri en tvö. Svo má líka nefna að tekjuviðmiðin sem lögð eru fyrir gjafsókn eru langt neðan við allt og meira að segja hafa ráðherrar sett reglugerðir sem takmarka slíkt enn frekar.“
Ragnar sagði þetta standa réttarríkinu fyrir þrifum, það er þeim hluta borgaranna sem höllustum fæti stendur í samfélaginu. Erfitt sé að komast fyrir dómstóla með réttindamál almennings, því það sé alltof dýrt og möguleikinn á gjafsókn oft lítill sem enginn.
Í lögum um meðferð einkamála segir að gjafsókn verði aðeins veitt ef málstaður umsækjanda gefi nægilegt tilefni til málshöfðunar eða málsvarnar og öðru hvoru eftirfarandi skilyrða er að auki fullnægt:
a. að fjárhag umsækjanda sé þannig háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í máli yrði honum fyrirsjáanlega ofviða, enda megi teljast eðlilegt að öðru leyti að gjafsókn sé kostuð af almannafé,
b. að úrlausn máls hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda.