Tyrkneska líran hefur hrapað í verði á síðustu dögum eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti að hún myndi beita frekari viðskiptaþvingunum og tollahækkunum gegn Tyrklandi. Með atburðum vikunnar aukast líkurnar á efnahagskreppu í landinu, þar sem gjaldmiðil þeirra hefur verið í frjálsu falli og verðbólgan náð methæðum á síðustu misserum. CNN og Guardian greina frá.
Samkvæmt frétt CNN hefur líran fallið um 40% í verði gegn Bandaríkjadal það sem af er ári og heldur áfram að veikjast þrátt fyrir ítrekuð ræðuhöld Tyrklandsforseta til að róa markaðina. Á meðan gjaldmiðillinn veiktist hratt fyrr í dag tilkynnti svo Donald Trump Bandaríkjaforseti með Twitter-færslu að tollar á innfluttu stáli og áli frá Tyrklandi yrðu hækkaðir enn frekar. Færsluna má sjá hér að neðan.
I have just authorized a doubling of Tariffs on Steel and Aluminum with respect to Turkey as their currency, the Turkish Lira, slides rapidly downward against our very strong Dollar! Aluminum will now be 20% and Steel 50%. Our relations with Turkey are not good at this time!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) August 10, 2018
Minna traust til lírunnar
Ástæða veikingar lírunnar eru margþættar, en samkvæmt báðum miðlunum stafar hún fyrst og fremst af minna trausti erlendra fjárfesta til gjaldmiðilsins. Verðbólgan í landinu hefur stigið hratt frá ársbyrjun 2017, en forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, hefur beitt sér gegn því að stýrivextir seðlabankans þar í landi verði hækkaðir. Án mikillar hækkunar stýrivaxtanna hefur reynst erfitt að bregðast við verðbólgunni og náði hún methæðum í 15 prósentum í síðasta mánuði. Greiningaraðilar óttast efnahagskreppu í landinu vegna veiks gjaldmiðils og hárrar verðbólgu, en fari svo gæti Tyrkland þurft að setja á gjaldeyrishöft og sækja um lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Á síðustu dögum hefur svo andað köldu milli Tyrklands og Bandaríkjanna vegna handtöku Tyrkja á bandarískum presti. Tyrknesk stjórnvöld hafa ákært prestinn fyrir njósnir og hryðjuverkastarfsemi tengdri misheppnaðri valdaránstilraun sem átti sér stað þar í landi fyrir tveimur árum síðan. Bandaríkjastjórn hefur svarað handtökunni með viðskiptabanni á tveimur tyrkneskum ráðherrum og varað við frekari aðgerðum verði prestinum ekki sleppt.
Mörg nýmarkaðsríki í hættu
Kjarninn fjallaði um grein Gylfa Zoëga í Vísbendingu fyrr í sumar, en í henni varaði hann við ýmsum hættum sem hann taldi steðja að heimshagkerfinu. Þeirra á meðal voru lán nýmarkaðsríkja í Bandaríkjadölum þar sem vextir hafa hækkað undanfarin tvö ár. Samhliða vaxtahækkun Bandaríkjadalsins hafa nýmarkaðsríkin einnig verið neydd til að hækka sína innlendu vexti og þrengja enn frekar að efnahag sínum. Í þessu tilviki nefndi Gylfi sérstaklega Argentínu og Tyrkland, en bætti við að líklegt sé að Brasilía og Suður-Afríka muni bætast í hóp þessara landa sem eru á barmi fjármálakreppu í náinni framtíð.