Forsætisráðherra Nýja-Sjálands tilkynnti í gær bann á einnota plastpokum sem hrint yrði í framkvæmd á næsta ári. Með lagasetningunni myndi landið bætast í hóp yfir 40 landa víðs vegar um heiminn sem bannað hafa plastpoka. Þetta kemur fram í frétt á vef The Guardian.
Samkvæmt yfirlýsingu frá Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, mun ríkisstjórnin lögfesta bannið á næstu mánuðum, en það yrði innleitt með sex mánaða fyrirvara svo smásölufyrirtæki landsins geti undirbúið sig fyrir það. Að því tímabili loknu geti fyrirtæki átt yfir höfði sér sektir sem næmu allt að 7 milljónum íslenskra króna, fylgi þau banninu ekki eftir.
„Á hverju ári notar Nýja-Sjáland hundruðir milljóna einnota plastpoka. Heilt fjall af plastpokum, margir hverjir sem enda á því að menga okkar dýrmæta strandarumhverfi og valdið alls konar sjávarlífi alvarlegum skaða, þegar aðrir fýsilegir valkostir eru í boði fyrir neytendur og fyrirtæki,“ sagði Ardern í tilkynningu sinni.
Samkvæmt frétt The Guardian er ruslframleiðsla Nýja-Sjálands á höfðatölu einna hæst meðal iðnríkja, þar sem um 750 milljónir einnota plastpoka eru notaðar á hverju ári. Það samsvarar um rúmlega 150 plastpokum á hverjum íbúa á hverju ári.
Alls hafa meira en 40 lönd kynnt plastpokabann í einhverri mynd ,en fyrst þeirra var Bangladesh árið sem kynnti það árið 2002. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins tilkynnti svo í lok maí tillögu um bann á einnota plastvörum, en tillagan myndi einnig ná til plastflaskna og sogröra.