Nokkrum götum verður lokað frá klukkan tíu til sex í kvöld vegna Gleðigöngu Hinsegin daga, sem leggur af stað kl. 14 frá Hörpu í dag og endar í Hljómskálagarðinum. Greint er frá lokunum auk raskana í almenningssamgöngum á vef Hinsegin daga, Reykjavíkurborgar og Strætó í dag.
Gleðigangan er hápunktur Hinsegin daga sem stendur nú yfir, sem haldnir eru af Samtökunum 78. Í göngunni sameinast lesbíur, hommar, tví-og pankynhneigðir, trans fólk, intersex fólk og aðrir hinsegin einstaklingar í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum til að staðfesta tilveru sína og minna á baráttumál sín,eins og segir á heimasíðu samtakanna.
Uppstilling göngunnar verður frá hádegi á Sæbraut, austan Faxagötu, í nágrenni Hörpu. Gangan leggur svo af stað frá gatnamótum Sæbrautar og Faxagötu stundvíslega kl. 14. Gengið verður eftir Kalkofnsvegi, Lækjargötu, Fríkirkjuvegi og endað á Sóleyjargötu. Sjá má kort af göngunni hér að neðan.
Götulokanir standa yfir frá klukkan tíu til klukkan sex í dag, en þar verður áðurnefndum götum lokað auk nokkurra annarra gatna í miðbænum. Þær eru eftirfarandi: Sæbraut frá Snorrabraut að Hörpu, Geirsgata að Ægisgötu, Skothúsvegur hjá Tjörninni, Amtmannsstígur og Þingholtsstræti norðan MR, Bankastræti og neðsti hluti Skólavörðustígs. Einnig er neðsti hluti Hverfisgötu og Tryggvagata lokuð. Öllum götum verður lokað til klukkan 18 fyrir utan Geirsgötu, sem opnar klukkan 15.