Fullyrða má að flestir Íslendingar kannist við stórverslunina Magasin du Nord. Velflestir Íslendingar sem hafa komið til Kaupmannahafnar hafa rölt um stórhýsið við Kóngsins Nýjatorg en auk þess rekur Magasin fimm aðrar verslanir og sú sjöunda verður opnuð í Álaborg í næsta mánuði.
Saga þessarar þekktu stórverslunar hófst í Árósum 1868, fyrir réttum 150 árum. Stofnendurnir voru Theodor Wessel og Emil Vett og verslunin, sem seldi vefnaðarvörur hét Emil Vett & Co. Reksturinn gekk vel og árið 1870 opnuðu þeir félagar verslun á Østergade (síðar hluti Striksins) í Kaupmannahöfn. Ári síðar flutti síðar flutti verslunin á þann stað við Kóngsins Nýjatorg þar sem hún er enn í dag. Verslunin hét þá De forenede Hvidevareforretninger ved Th. Wessel & Co og var í hluta Hotel du Nord en það hús var rifið árið 1893 og núverandi verslunarhús byggt. Í virðingarskyni við gamla hótelið breyttu þeir félagar árið 1879 nafninu á versluninni í Magasin du Nord. Starfsemin í Árósum gekk vel, verslunin flutti í stærra húsnæði og fyrirtækið stækkað ört. Árið 1890 voru samtals 50 Magasin du Nord verslanir víða í Danmörku, margar þeirra litlar og í eigu einstaklinga sem önnuðust reksturinn. Á fyrstu áratugum síðustu aldar fjölgaði Magasin verslunum og árið 1925 voru þær 170 talsins.
Stofnendurnir, Theodor Wessel og Emil Vett drógu sig út úr rekstrinum um aldamótin 1900. Magasin var skráð á markað árið 1952 en fjölskyldur stofnendanna áttu til skamms tíma fulltrúa í stjórn fyrirtækisins
Á árunum eftir 1950 ákvað stjórn Magasin að reka fáar, en stórar verslanir og nú eru þær sex talsins og sú sjöunda verður opnuð í september. Auk þess rekur Magasin netverslun þar sem viðskiptin aukast hratt.
Erfiðleikar og kaupin á Illum
Árið 1891 stofnaði Anton Carl Illum verslun við Østergade (síðar Strikið) í Kaupmannahöfn. Anton Carl leitaði ekki langt yfir skammt að nafni á verslunina, hún var einfaldlega kennd við hann sjálfan, Illum. Í upphafi verslaði Illum einkum með alls kyns efni og tilheyrandi til kjólasaums. Árið 1899 fluttist verslunin yfir götuna og þar hefur hún verið allar götur síðan. Á þessum árum voru auk Illum og Magasin fleiri stórverslanir í Kaupmannahöfn, en þær heyra nú allar sögunni til. Illum og Magasin eru stutt hvor frá annarri og hafa áratugum saman keppst um hylli viðskiptavinanna. Illum lengst af aðeins dýrari þótt ekki hafi munurinn verið mikill. Fjölskylda stofnandans (sem lést árið 1938) átti verslunina til ársins 1972. Stóraukin samkeppni olli erfiðleikum í rekstri Illum og Magasin en rekstur Illum gekk þó mun verr.
Árið 1991 keypti Magasin Illum en seldi tveimur árum síðar 80% hlut í versluninni til bandaríska fjárfestingarbankans Merrill Lynch. Eftir þau eigendaskipti varð nokkur breyting á verslunarhúsi Illum við Strikið, aukin áhersla var lögð á dýrari varning (verðið hækkaði líka). Til að gera langa sögu stutta hafa þessar breytingar ekki fallið í kramið hjá Dönum. Rekstur Illum hefur árum saman gengið erfiðlega en fyrirtækið hefur um nokkura ára skeið verið í eigu ítölsku verslanasamsteypunnar La Rinascente. Miklu fé hefur verið varið í breytingar og endurbætur en það hefur engu breytt, kúnnarnir láta sig vanta. Margir undruðust þegar tilkynnt var fyrir um það bil tveimur árum að matvöruverslunin Irma, sem verið hafði í kjallara Illum um áratuga skeið hefði verið sagt upp plássinu, nánast rekin á dyr. Í staðinn kæmi ítölsk „hágæðaverslun“ Eataly. Passaði inn í „konseptið“ eins og það var kallað. Irma hafði notið mikilla vinsælda og dró að sér mikinn fjölda viðskiptavina á degi hverjum. Skemmst er frá því að segja að ítalska „hágæðaverslunin“ náði sér aldrei á strik, skrifari þessa pistils rak þar nokkrum sinnum inn nefið og augljóst var að eigendur Illum höfðu misreiknað sig illilega. „Hágæðaversluninni“ hefur nú verið lokað og viti menn, Irma komin aftur.
Íslenska „ævintýrið“
Eins og flestum er kunnugt fóru íslenskir athafnamenn mikinn, jafnt heima og erlendis, á fyrstu árum aldarinnar. Slógu um sig í viðskiptum, ekki síst í Danmörku og keyptu árið 2004 Magasin (með húð og hári sagði eitt íslensku blaðanna) og eignuðust með kaupunum 20% hlut í Illum og ári síðar allt fyrirtækið. Mörgum Dönum þótti nóg um kaupagleði Íslendinganna sem keyptu meðal annars á þessum tíma Hotel D‘Angleterre, þekktasta hótel Danmerkur. „Hvaðan koma peningarnir“ sögðu Danir og klóruðu sér í kollinum. Ekki þarf að fjölyrða um endalok þessarar útrásar og allt sem þeim fylgdi en „ævintýrið“ fékk skjótan endi.
Debenhams og Magasin
Árið 2009, þegar íslenska „ævintýrið“ var úti, keypti breska verslanafyrirtækið Debenhams Magasin, hlutur Íslendinga í Illum fór á annarra hendur. Debenhams, sem verslar með fatnað, heimilisvörur og margt fleira, á sér langa sögu. Var stofnað árið 1778 og var árið 2016 með um 28 þúsund starfsmenn og 180 verslanir. Allra síðustu ár hafa reynst Debenhams þung í skauti og blikur á lofti. Þar kemur ýmislegt til. Í Bretlandi hefur verslunarrekstur almennt gengið erfiðlega, nema á netinu, og nú eru óvissutímar, ekki síst vegna Brexit. Fyrir skömmu sagði einn af stjórnendum Debenhams í viðtali við fréttamann Reuters,að núna væri „kannski“ rétti tíminn til að endurskoða ýmislegt í rekstrinum og nefndi Magasin sérstaklega. Í umfjöllun Reuters um erfiðleika Debenhams sagði fréttamaðurinn að ekki væri tilviljun að stjórnandinn hefði nefnt Magasin. Þar gengi reksturinn nefnilega mjög vel. Í áðurnefndu viðtali vildi stjórnandinn ekki ræða hugsanlegt söluverð en í viðtali við dagblaðið Guardian nokkrum dögum síðar nefndi einn stjórnenda Debenhams töluna tvo milljarða danskra króna, um það bil 33 milljarða íslenska. Hann vildi ekki segja neitt um hvort einhverjir hefðu lýst áhuga á að kaupa Magasin en lagði áherslu á að rekstur Magasin verslananna gengi vel og þess vegna hlyti danska fyrirtækið að freista margra.
Breytir einhverju hver eigandinn er ?
Reynslan sýnir að í sjálfu sér skiptir eignarhaldið ekki máli. Verslanir ganga iðulega kaupum og sölum án þess að viðskiptavinir merki breytingar. Mestu skiptir að skynja taktinn í samfélaginu og það virðist eigendum Magasin hafa tekist. Líklegt verður því að telja að nýir eigendur Magasin muni, ef af sölu verður, fara varlega í breytingar. Reyna ekki að finna upp hjólið. Flýta sér hægt.