Bandaríkjastjórn hyggst hætta við framlög til hjálparstarfs fyrir Palestínumenn á Gaza og Vesturbakkanum til að þrýsta stjórnvöld þar í landi á samþykkja friðaráætlanir Bandaríkjamanna. Þetta kom fram í frétt á vef Foreign Policy nú á dögunum.
Samkvæmt fréttinni var ákvörðunin tekin af Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Jared Kushner, tengdasyni Bandaríkjaforseta og ráðgjafa í Mið-Austurlandamálum landsins, á lokuðum fundi í síðustu viku. Talsmenn Bandaríkjastjórnar hafa hins vegar sagt að engin opinber ákvörðun hafi verið tekin um þetta mál.
Umrædd framlög, sem nema um 200 milljónum Bandaríkjadala, myndu ná til fjölda lítilla hjálparsamtaka og eru nær eini styrkurinn sem Bandaríkin veita palestínskum borgurum af mannúðarástæðum. Ríkisstjórnin gefur líka UNRWA, sem er deild innan Sameinuðu þjóðanna sem hjálpar palestínskum flóttamönnum, regluleg framlög, en þau hafa einnig orðið fyrir miklum niðurskurði sem ekki er útlit fyrir að verði snúið við.
Heimildarmenn Foreign Policy segja að Pompeo hafi í fyrstu verið andvígur tillöguninni, en hafi svo látið til leiðast þar sem Kushner héldi því fram að hún myndi styrkja samningsstöðu þeirra þegar friðaráætlun þess síðarnefnda fyrir Mið-Austurlönd yrði tilkynnt á næstu misserum. .
Ákvörðunin er tekin á sama tíma og hundruðum hjálparstarfsmanna á Vesturbakkanum og Gazaströndinni er sagt upp auk þess sem aðrir starfsmenn alþjóðlegra stofnanna á svæðinu lækka í launum. Samkvæmt Foreign Policy hefur neyðin á Gaza heldur aldrei verið meiri en akkúrat núna, í miðri uppsagnarhrinu hjálparstofnananna.