Rúmlega sjö af hverjum tíu Íslendingum telja #MeToo byltinguna vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag, samkvæmt nýbirtri könnun MMR. Stuðningurinn við byltinguna var mestur meðal kvenna, höfuðborgarbúa og kjósenda Vinstri grænna.
Könnunin var framkvæmd dagana 16. Til 22. Maí 2018 og var heildarfjöldi svarenda 929 einstaklingar, 18 ára og eldri Af aðspurðum sögðust tæplega 71 prósent telja #MeToo vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag en 13 prósent töldu hana neikvæða.
Stuðningur meðal kvenna var 82 prósent og var nokkuð meiri en stuðningur meðal karla, sem var um 60 prósent. Sömuleiðis voru íbúar höfuðborgarsvæðisins jákvæðari gagnvart byltingunni heldur en þeir sem voru búsettir á landsbyggðinni, en stuðningurinn mældist 74 prósent hjá borgarbúum og 64 prósent hjá landsbyggðarbúum.
Stuðningsfólk Vinstri grænna ( 91 prósent) og Samfylkingarinnar (87 prósent) var líklegast til að líta byltinguna jákvæðum augum, en Stuðningsfólk Miðflokks (32 prósent), Sjálfstæðisflokks (22 prósent) og Flokks fólksins (16 prósent) voru ólíklegust til þess.