Per Sandberg sjávarútvegsráðherra Noregs mun segja af sér seinna í dag, í kjölfar hneykslismáls um Íransferð hans fyrr í sumar. Þetta herma heimildir Aftenposten.
Sandberg hefur mætt harðri gagnrýni eftir að í ljós kom að hann hafi brotið fjölda öryggisreglna embættis síns með því að hafa ferðast til Íran með kærustu sinni í júlí, en hvorki hans eigið ráðuneyti né forsætisráðuneytið fengu að vita um heimsóknina fyrir fram. Ráðherrann sagðist ekki hafa tilkynnt ferðina þar sem hún hafi verið hluti af breyttum ferðaplönum síns og kærustu sinnar, en hann ætlaði upphaflega til Tyrklands.
Hörðust hefur gagnrýnin þó verið vegna þess að Sandberg tók vinnusímann sinn með til Íran og braut þannig reglur þjóðaröryggisstofnunarinnar. Síminn hefur nú verið afhentur öryggisþjónustu Noregs til rannsóknar.
Samkvæmt heimildum Aftenposten mun Harald Tom Nesvik taka við af Sandberg sem sjávarútvegsráðherra á ríkisstjórnarfundi eftir hádegi í dag. Nesvik var þingflokksformaður norska Framfaraflokksins (Frp) á síðasta kjörtímabil, en afþakkaði þingsæti fyrir sumarið vegna fjölskylduaðstæðna.
Sandberg hefur verið sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Ernu Solberg síðan í desember 2015. Hann var einnig settur dómsmálaráðherra um tíma fyrr í ár. Hann kemur úr Framfaraflokknum og hóf stjórnmálaferil sinn sem þingmaður fyrir 21 ári síðan.