Lífeyrissjóðurinn Gildi er orðinn með yfir tíu prósenta eignahlutdeild í Eimskipum vegna hlutafjárlækkunar fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni sem kom í dag.
Kjarninn fjallaði áður um hlutafjárlækkun Eimskipa, en hún var samþykkt á síðasta hluthafafundi félagsins þann 23. júlí síðastliðinn. Þar samþykktu hluthafar félagsins að lækka hlutaféð úr 200 milljónum króna niður í 187 milljónir króna. Lækkunin fór endanlega í gegn nú á dögunum, en greint var frá því á vef Kauphallarinnar í gær.
Í dag birtist svo flöggun frá Kauphöllinni þar sem greint var frá aukningu eignarhluts lífeyrissjóðsins Gildi vegna hlutafjárlækkunarinnar, en lækkunin leiddi til þess að lífeyrissjóðurinn er nú kominn með yfir tíu prósenta eignarhlutdeild í Eimskipum. Eignarhlutdeild Gildis nemur nú 10,44 prósentum og hækkaði úr 9,75 prósentum vegna ákvörðunar hluthafa Eimskipa. Þar er stærst hlutdeild Gildis í gegnum samtryggingardeild sína, en hún er 10,32 prósent. Séreignardeildir Gildis, Framtíðarsýn 1 og 2, eiga svo einnig samanlagt 0,12 prósent í félaginu.