Engir innkaupalistar vegna næsta skólaárs verða gefnir út hjá grunnskólum Reykjavíkur á þessu hausti, en nemendurnir munu fá þau skólagögn sem þeir þurfa endurgjaldslaust. Kostnaður Reykjavíkurborgar við kaupin á gögnunum mun nema um 40 milljónum króna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Samkvæmt tilkynningunni var ákvörðun um endurgjaldslaus námsgögn grunnskólabarna samþykkt af borgarstjórn Reykjavíkur í desember í fyrra. Sú samþykkt byggði meðal annars á tilmælum frá foreldrafélögum skólanna og Samtökum foreldrafélaga grunnskólabarna í Reykjavík (SAMFOK). Borgarstjórnin heldur því fram að slíkt fyrirkomulag spari bæði fé og tíma, sé umhverfisvænna og stuðli að betri nýtingu skólagagna.
40 milljóna króna kostnaður
Þau skólagögn sem nemendur fá endurgjaldslaust eru meðal annars stílabækur, reikningsbækur, möppur, vinnubækur, vinnubókarblöð, pappír, ritföng litir, vasareiknar og fleira. Reykjavíkurborg efndi til útboðs á gögnunum, en A4 átti lægsta tilboðið og var því gengið til samninga við fyrirtækið. Tilboðið nam um 40 milljónum króna.