Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, gefur kost á sér í framboði til formanns Neytendasamtakanna. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Ásthildur sendi frá sér fyrr í dag.
Kjarninn hefur áður fjallað um framboð til formanns Neytendasamtakanna, en fjórir aðrir hafa gefið kost á sér í embættið. Þeir eru Breki Karlsson forstöðumaður stofnunar um fjármálalæsi, Guðmundur Hörður Guðmundsson fyrrverandi formaður Landverndar, Guðjón Sigurbjartsson viðskiptafræðingur og Jakob S. Jónsson leiðsögumaður og leikstjóri.
Framboðsfresturinn rann út í dag, en nýr formaður verður kjörinn á þingi Neytendasamtakanna 27. október næstkomandi.
Í tilkynningu sinni segir Ásthildur að þörfin á sterkum samtökum neytenda hafi sjaldan eða aldrei verið brýnni en núna. Þörf sé á öflugum Neytendasamtökum sem óhrædd séu við að „taka slagi“ til að verja hagsmuni almennings. Sjálf er Ásthildur kennari og sitjandi formaður Hagsmunasamtaka heimilanna, en hún var í þriðja sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík í síðustu sveitarstjórnarkosningum.