„Nú er bara að viðhalda stemmningunni á stærsta skemmtistað í heimi,“ segir Margrét Tryggvadóttir, nýráðinn forstjóri fjarskipta- og upplýsingatæknifyrirtækisins Nova.
Hún tekur við stjórnartaumunum úr höndum Livar Bergþórsdóttur, sem hefur verið forstjóri Nova í 12 ár og leitt uppbyggingu félagsins á Íslandi. Þær hafa starfað náið saman um árabil, en greint var frá forstjóraskiptunum í morgun.
Liv og Jóakim Reynisson, fráfarandi framkvæmdastjóri tæknisviðs Nova, láta af störfum hjá félaginu en munu áfram gegna ráðgjafarhlutverki og vera nýjum forstjóra innan handar næstu mánuði.
Margrét segist hlakka til þess að takast á við þá áskorun að stýra Nova. „Þetta er mikil áskorun, en um leið eru tækifærin mikil fyrir Nova inn í framtíðina,“ segir Margrét.
Liv segist á Facebook síðu sinni þakklát fyrir árin hjá Nova. „Takk öll fyrir samstarfið, vináttuna og gleðina! Frábær 12 ár með frábæru fólki! Nú er Magga komin í skóna mína og tekur næsta sprett. Hlakka til að fylgjast með ykkur gera stærsta skemmtistað í heimi en stærri - hækkið í græjunum! Takk fyrir mig,“ segir Liv.
Rekstur Nova gekk vel í fyrra en ólíkt helstu samkeppnisaðilum félagsins, Vodafone (Sýn) og Símanum, er félagið ekki skráð á markað hér á landi.
Félagið jók hagnað sinn um tæp 19 prósent á milli ára samkvæmt ársreikningi félagsins. Nam hagnaðurinn fyrir árið 2017 1,45 milljörðum króna samanborið við 1,23 milljarða árið 2016.
EBITDA, rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, nam rúmlega 2,4 milljörðum en var árið 2016 tæplega 2,3 milljarðar króna.
Þá jukust tekjur félagsins lítillega á milli ára, en þær námu í fyrra 8,8 milljörðum.
Í ársreikningi félagsins kemur fram að stjórn þess leggi til að greiddur verði út arður til hluthafa vegna ársins 2017. Arðgreiðslan nemur 1,4 milljarði króna.
Stærsti hluthafi Nova er félagið Platinum Nova í eigu Pt. Capital, Novator og stjórnenda Nova. Gengið var frá sölu á 50 prósenta hlut í félaginu fyrir um ári síðan til bandaríska eignastýringarfyrirtækisins PT Capital Advisors, sem einnig á hlut í KEA-hótelum.
Eigið fé félagsins var í lok árs tæplega 5 milljarðar króna.