Menntun foreldra ræður minna um menntun barna þeirra heldur en á Norðurlöndunum.
Nýleg rannsókn Gylfa Zoega með Emil Dagssyni og Þorláki Karlssyni sýnir fram á þetta. Gott aðgengi að menntastofnunum er þar grundvallaratriði.
Frá þessu er greint í ítarlegri grein Gylfa í Vísbendingu, sem kemur til áskrifenda á morgun, þar sem hann fjallar um stöðu efnahagsmála á Íslandi, þróun tekjudreifingar og nýlegar rannsóknir á þessum sviðum.
„Rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið erlendis hafa sýnt sterk tengsl á milli menntunar foreldra og barna, það skiptir þá miklu máli inn í hvaða fjölskyldu börnin fæðast. Þessi tengsl hafa verið útskýrð á tvennan hátt. Í fyrsta lagi getur verið að foreldrar sem aflað hafa sér menntunar leggi meiri áherslu á menntun í uppeldi barna sinna og sé þeim einnig ákveðin fyrirmynd. Einnig er mögulegt að hæfileiki til náms sé að einhverju leyti arfgengur og eigi þá börn vel menntaðs fólks auðveldara með að afla sér menntunar.
Það skiptir augljóslega miklu máli að ungt fólk sem hefur getu og metnað til náms fái slík tækifæri óháð menntun og efnahag foreldra. Ef svo væri ekki þá myndi þjóðfélagið missa af starfskröfum sem annars gætur skapað verðmæti og notið sín betur sem einstaklingar.
Nýleg rannsókn mín með Emil Dagssyni og Þorláki Karlssyni bendir til þess að menntun foreldra ráði minnu um menntun barna hér á landi en í öðrum þróuðum ríkjum, tengsl menntunar foreldra og menntunar barna sé jafnvel minni en á hinum Norðurlöndunum. Tölfræðileg greining á úrtaki þar sem fram kemur menntun einstaklings og beggja foreldra leiðir í ljós að fylgni á milli menntunar barna og foreldra er til staðar en hún er minni en hún er að meðaltali fyrir hin Norðurlöndin en í alþjóðlegum samanburði þá er fylgnin lítil á Norðurlöndum.
Hlutfall barna foreldra sem hafa háskólagráðu og ljúka háskóla er svipað og á hinum Norðurlöndunum. En hlutfall barna foreldra sem ekki hafa lokið háskólaprófi og ljúka háskólaprófi er hærra á Íslandi en alls staðar nema í Finnlandi.
Niðurstöður okkar benda einnig til þess að það skipti líka máli að foreldrar leggi áherslu á mikilvægi menntunar í uppeldi barna sinna. Þannig virðist áhersla á menntun í uppeldi skipta jafn miklu máli og menntunarstig foreldranna. Og það er lág fylgni á milli menntunar foreldra og áherslu þeirra á mikilvægi menntunar í uppeldi. Þannig geta foreldrar, óháð menntastigi, haft áhrif á skólagöngu barna sinna hér á landi,“ segir í grein Gylfa.