Fjármagnstekjur eru að meðaltali langhæstar í Garðabæ og á Seltjarnarnesi, þegar skoðuð er skipting þeirra innan fjölmennustu sveitarfélaga landsins. Á árinu 2017 hafði hver Íslendingur að meðaltali 626 þúsund krónur í fjármagnstekjur. Meðaltal slíkra tekna á Seltjarnarnesi var hins vegar 1.403 þúsund krónur á hvern íbúa og 1.295 þúsund krónur á hver íbúa í Garðabæ. Til samanburðar má nefna að meðaltal fjármagnstekna hjá íbúum Reykjavíkur var 605 þúsund krónur.
Því er meðaltal fjármagnstekna um 132 prósent hærra á Seltjarnarnesi en í Reykjavík og 107 prósent hærra í Garðabæ en í höfuðborginni. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um tekjur einstaklinga.
Ráðstöfunartekjur líka hærri
Það kemur kannski ekki á óvart, í ljósi þess að flestir sem hafa beinar tekjur af fjármagni í sinni eigu búa í þessum tveimur sveitarfélögum, en ráðstöfunartekjur eru hærri hjá íbúum Seltjarnarness og Garðabæjar en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, þar sem rúmlega ⅔ hluti landsmanna býr.
Langhæstu ráðstöfunartekjur á hvern íbúa voru hins vegar í Grundarfjarðarbæ, þar sem þær voru 13,7 milljónir króna á árinu 2017. Ljóst er að um frávik er að ræða þar sem að ráðstöfunartekjur hækkuðu um tæplega tíu milljónir króna á milli ára og ráðstöfunartekjur síðasta ár voru miklu hærri en allra áranna sem á undan komu. Og uppistaðan af aukningunni er vegna fjármagnstekna, sem voru 10,1 milljónir króna á hvern íbúa í Grundarfjarðarbæ á síðasta ári. Auk þess verður að taka tillit til ess að í Grundarfirði búa einungis 834 manns.