Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vill að bólusetningar verði gerðar að skilyrði við inntöku í leikskóla Reykjavíkur. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Hildur að hún telji rétt að Reykjavíkurborg geri almennar bólusetningar að skilyrði fyrir inntöku, með einstaka undantekningum og segir margar Evrópuþjóðir hafa brugðið á sama ráð.
Hildur hyggst flytja tillöguna í borgarstjórn þar sem hún telji ástæðu til að bregðast við hættu sem skapist af óviðunandi þáttöku í bólusetningum á Íslandi að mati sóttvarnarlæknis. „Minnki þátttaka enn frekar má búast við að hérlendis fari að breiðast út sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil. Mislingar eru sérstakt áhyggjuefni en samkvæmt WHO hafa mislingar náð gífurlegri útbreiðslu í Evrópu síðustu tvö ár,“ segir Hildur.
Þetta hyggst borgarfulltrúinn gera þrátt fyrir að eigin sögn vera ekki fylgjandi boðum og bönnum.
Sóttvarnarlæknir gaf fyrir helgi út skýrslu um þátttöku í almennum bólusetningum barna á Íslandi árið 2017. Þar kom fram að þátttaka á árinu 2017 var svipuð og á árinu 2016, þar sem þátttaka yngstu árganganna í bólusetningum var lakari en áður hefur verið.
„Ef þátttaka minnkar enn frekar má búast við að hér á landi fari að sjást sjúkdómar sem ekki hafa sést um árabil. Sérstaklega eru mislingar áhyggjuefni en þeir hafa nú geisað af krafti víða í Evrópu um nokkurra ára skeið. Mikil flugumferð um Ísland gerir það að verkum að sóttvarnalæknir fær reglulega spurnir af því að einstaklingur með smitandi mislinga hafi verið í flugvél með viðkomu á Íslandi. Meðgöngutími sjúkdómsins er um 10-14 dagar en getur verið allt að 3 vikur og með dvínandi þátttöku yngstu árganganna í bólusetningum er hætt við að faraldur geti komið upp ef smit berst inn á leikskóla hér á landi,“ segir í umfjöllun Landlæknis um skýrsluna.
Mér finnst rétt að Reykjavíkurborg geri almennar bólusetningar að skilyrði við inntöku í leikskóla borgarinnar (með...
Posted by Hildur Björnsdóttir on Tuesday, August 28, 2018