Rúmlega 60 prósent þeirra innflytjenda sem störfuðu á íslenskum vinnumarkaði um mitt ár 2018 eru á aldrinum 20-39 ára, eða 23.796 af alls 38.765 manns. Flestir eru á aldrinum 25-29 ára eða 7.302 talsins. Þetta mál lesa út úr nýbirtum tölum Hagstofu Íslands um starfandi fólk á Íslandi.
Kjarninn greindi frá því í gær að þeir innflytjendur sem starfa á Íslandi séu nú 18,6 prósent starfandi fólks. Fjöldi innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði hefur tvöfaldast frá byrjun árs 2015 og frá byrjun árs 2017 hefur þeim fjölgað um 11.544.
Alls eru innflytjendur á íslenskum vinnumarkaði sem eru eldri en fimmtíu ára 5.569 talsins. Það þýðir að einungis 14,3 prósent innflytjenda á vinnumarkaði er á þeim aldri. Til samanburðar eru 161.289 einstaklingar með íslenskan bakgrunn starfandi hérlendis. Af þeim hópi eru 57.169 yfir fimmtugt, eða rúmlega 35 prósent. Samkvæmt þessum tölum stuðlar hið aðflutta vinnuafl að umtalsverðri yngingu á vinnuafli Íslands í heild.
Langflestir með lögheimili hér
Það vekur athygli að 32.779 þeirra innflytjenda sem starfa á íslenskum vinnumarkaði eru með lögheimili hérlendis, en einungis 5.986 með slíkt erlendis. Það gefur til kynna að flestir þeirra sem hingað koma til að starfa ætli sér að dveljast til lengri tíma.
Þessi staða hefur gert það að verkum að breytingarnar á samsetningu íbúa í Reykjanesbæ hafa orðið meiri en áður hefur þekkst í íslensku samfélagi. Í lok árs 2011 bjuggu þar 1.220 erlendir ríkisborgarar og voru 8,6 prósent íbúa sveitarfélagsins. Í dag búa 18.510 manns í Reykjanesbæ og erlendir ríkisborgarar þar eru, líkt og áður sagði, 4.270. Því eru 23 prósent íbúa Reykjanesbæjar erlendir ríkisborgarar. Það hlutfall var 20 prósent um síðustu áramót.