Amazon varð rétt í þessu annað skráða fyrirtækið í sögunni til þess að ná verðmiða upp á eitt þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 109 þúsund milljörðum króna. Hitt fyrirtækið sem hefur náð þessum verðmiða er Apple, en það náði verðmiðanum fyrr á þessu ári.
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, á ennþá 17 prósent hlut í fyrirtækinu og er um þessar mundir langsamlega ríkasti maður heims, en eignir hans eru metnar á tæplega 180 milljarða Bandaríkjadala og munar þar langsamlega mest um hluti hans í Amazon.
Bezos stofnaði Amazon upphaflega sem bóksölu á internetinu, árið 1994, en frá 1997 hefur fyrirtækið verið skráð á markað. Ekkert fyrirtæki í sögunni hefur vaxið jafn hratt og Amazon, hvort sem horft er til tekna eða markaðsvirðis.
Breaking News: Amazon just became the second American company with a $1 trillion valuation, after Apple. But its route to that milestone was very different. https://t.co/EbYVl9gOL5
— The New York Times (@nytimes) September 4, 2018
Það er til marks um hversu hár verðminn er á Amazon, að fyrir þá upphæð sem hann nemur, um 109 þúsund milljarða, þá mætti kaupa allar fasteignir á Íslandi tæplega 14 sinnum, sé mið tekið af fasteignamati.