Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mun fara með tvö kærumál er varða ákvarðanir bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um framkvæmdir og kaup á mannvirkjum í Kaplakrika í stað Sigurðar Inga Jóhannssonar ráðherra sveitarstjórnarmála. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði þetta til á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
„Þar sem fyrrverandi aðstoðarmaður Sigurðar í embætti sem ráðherra, sem nýlega lét af störfum sem slíkur, situr í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, ákvað ráðherra að víkja sæti. Ég ákvað að óska eftir því við heilbrigðisráðherra að hún tæki að sér að fara með málin. Málið fer bara yfir til þessa ráðehrra og hún skoðar það og úrskurðar. Þetta er nákvæmlega eins og ég gerði um daginn þegar ég óskað eftir því að fjármálaráðherra yrði minn staðgengill í stóra þjóðsöngsmálinu,“ segir Katrín í samtali við Kjarnann.
Minnihluti í bæjarstjórn Hafnarfjarðar kærði samþykktir meirihluta bæjarstjórnarinnar til ráðuneytisins, sem snerust um rammasamkomulag sem milli bæjarins og FH, sem mun byggja og eiga knatthús en Hafnarfjarðarbær í staðinn kaupa eldra knatthús FH af félaginu auk íþróttahús félagsins í Kaplakrika.
FH mun sem sagt byggja, eiga og reka knatthúsið í stað þess að bærinn geri það. Bærinn kaupir þess í stað íþróttamannvirki í Kaplakrika og eignast þau að fullu, fyrir 790 milljónir króna. FH notar kaupverðið til byggingar á knatthúsinu og skuldbindur sig til að klára framkvæmdir á eigin kostnað og ábyrgð fari kostnaður fram yfir áætlun félagsins. Bærinn greiðir kaupverðið svo í áföngum samkvæmt fjárhagsáætlun bæjarins og eftir því hvernig framkvæmdum vindur fram.
Minnihlutinn er ósáttur við hvernig staðið var að afgreiðslu málsins sem var tekið fyrir í bæjarráði, en minnihlutinn telur að málið sé svo stórt og þess eðlis að leiða eigi það til lykta á vettvangi bæjarstjórnar þar sem allir bæjarfulltrúar hafi möguleika á að koma að afgreiðslu málsins.