Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, neitaði sök við þingfestingu sakamáls á hendur honum sem fram fór í morgun. Frá þessu er greint á vef mbl.is.
Júlíus Vífill, sem er ákærður fyrir peningaþvætti, sagði við fjölmiðla eftir að þingsetningin fór fram að hann myndi ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.
Kjarninn greindi frá því 17. ágúst síðastliðinn að Júlíus Vífill hefði verið ákærður í málinu. Í þeirri umfjöllun kom fram að hann hefði verið einn þeirra stjórnmálamanna sem voru opinberaðir í Panamaskjölunum og greint var frá í sérstökum Kastljósþætti sem sýndur var 3. apríl í 2016. Þar kom meðal annars fram að hann hefði í ársbyrjun 2014 stofnað félagið Silwood Foundation á Panama. Rík áhersla var lögð á það við stofnun félagsins að nafn Júlíusar Vífils kæmi hvergi fram í tengslum við félagið, samkvæmt umfjölluninni.
Í ákærunni á hendur Júlíusi Vífli kemur fram að hann hafi viðurkennt við rannsókn málsins að hann hefði framið skattalagabrot. Í þeirri játningu fólst að Júlíus Vífill viðurkenndi að hann gaf ekki upp til skatts tekjur sem honum hlotnuðust árið 2005, eða fyrr, og geymdar eru á aflandsreikningi. Júlíus Vífill hefur ekki viljað upplýsa um hvenær umræddra tekna var aflað og því er ekki hægt að segja með vissu hver ávinningur hans af skattalagabrotunum hefur verið.
Öðru máli gegnir hins vegar um peningaþvætti. Lögum landsins var breytt árið 2009 þannig að refsivert var að þvætta ávinning af eigin afbrotum. Því er Júlíus Vífill ákærður fyrir peningaþvætti frá þeim tíma sem lögin tóku gildi, eða frá 30. desember 2009.
Í ákæru segir að borgarfulltrúinn fyrrverandi hafi á árunum 2010 til 2014 „geymt á bankareikningi sínum nr. 488380 hjá UBS banka á Ermarsundseyjunni Jersey, andvirði 131 til 146 milljóna króna, í bandaríkjadölum, evrum og sterlingspundum, sem að hluta voru ávinningur refsiverðra brota, þar sem um var að ræða tekjur sem ákærða höfðu hlotnast nokkrum árum fyn, en ekki talið fram til skatts, og því ekki greitt tekjuskatt og útsvar af í samræmi við ákvæði skattalaga, ásamt vöxtum af því fé, og hafa árið 2014 râôstafað umræddum fiármunum af fyrmefndum bankareikningi hjá UBS banka inn á bankareikning nr. 0260.1020 02.01, hjá bankanum Julius Bär í Sviss, sem tilheyrði vörslusjóðnum Silwood Foundation, en rétthafar vörslusjóðsins voru ákærði, eiginkona hans og börn.“
Sú fjárhæð sem er talin vera ólögmætur ávinningur vegna þvættisins, þ.e. þeir skattar sem Júlíus Vífill átti að greiða og vextir af því fé, er áætluð á bilinu 49 til 57 milljónir króna. Refsiramminn fyrir slík brot er allt að sex ára fangelsi.