HB Grandi hf. hefur gert samning um kaup á öllu hlutafé útgerðarfélaginu Ögurvík ehf. Seljandi hlutafjárins er Brim hf., sem jafnframt er stærsti eigandi HB Granda með 35 prósent hlut. Þar er Guðmundur Kristjánsson stærsti eigandi, en hann er jafnframt forstjóri HB Granda.
Frá þessu er greint í tilkynningu til kauphallar, en HB Grandi er eina útgerðarfélagið á Íslandi sem skráð er á markað.
„Kaupverðið er um 12,3 milljarðar króna (95 milljónir evra) en getur tekið leiðréttingum þegar niðurstaða fjárhagsuppgjörs félagsins miðað við 31. ágúst 2018 liggur fyrir. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki stjórnar HB Granda hf. og hluthafafundar félagsins. Þá eru viðskiptin einnig háð samþykki Samkeppniseftirlitsins um samruna þann sem kaupin leiða til. Kaupin verða fjármögnuð með eigin fé og lánsfjármagni. Hlutabréfin verða afhent við greiðslu kaupverðs. Jafnframt liggur fyrir vilji stjórnar HB Granda til að skoða sölu félagins á frystitogara sem nú er í smíðum á Spáni,“ segir í tilkynningunnni.
Í ítarlegri úttekt á viðskiptaveldi Guðmundar, sem birtist á vef Kjarnans í dag, er fjallað um stöðu Guðmundar og félaga í hans eigu, að stærstum hluta. Í úttektinni var meðal annars fjallað um það, að Ögurvík hefði verið til sölu í nokkurn tíma og að HB Grandi gæti keypt félagið, til að létta á skuldastöðu Brims gagnvart Landsbankanum, sem er stærsti viðskiptabanki Guðmundar, og á sama tíma ná að styrkja fjárhagsstöðu HB Granda.
Í úttektinni segir meðal annars:
„Eitt af því sem hefur komið til greina er að Brim selji eignir, til að létta á skuldum og losi um fé. Það eru helst tæplega þriðjungshlutur í Vinnslustöðinni, en hann hefur verið til sölu lengi. Ekki hefur þó fundist kaupandi sem tilbúinn er að borga það fyrir hlutinn sem Guðmundur hefur viljað fá fyrir hann. Einnig hefur Ögurvík, fyrirtækið sem Brim keypti í júlí 2016, verið til sölu. Innan íslensks sjávarútvegs hefur það verið nefnt, að HB Grandi gæti keypti það félag og styrkt sinn rekstur í leiðinni, með aukinni stærðarhagkvæmni. Það myndi mögulega einnig styrkja stöðu Guðmundar í leiðinni, og þannig væri mögulegt að slá tvær flugur í einu höggi í fjárhagslegu tilliti.“
Markaðsvirði HB Granda er 56,4 milljarðar, miðað gengið við lokun markaða í dag.